Veiðistofnsvísitala úthafsrækju hækkar

Veiðistofnsvísitala úthafsrækju hækkar

Nýlega lauk árlegum úthafsrækjuleiðangri Hafrannsóknastofnunar fyrir norðan og austan land. Markmið leiðangursins er að meta stofnstærð og nýliðun úthafsrækju. Mælingin fór fram á Bjarna Sæmundssyni 12.-26. júlí. Í leiðangrinum voru teknar 86 stöðvar eftir fyrirfram ákveðnu stöðvaplani (mynd 1).
 
Vísitala úthafsrækjustofnsins hefur farið nær stöðugt lækkandi frá árinu 2009 og árið 2015 var hún sú lægsta sem mælst hafði síðan rannsóknir á úthafsrækju hófust árið 1988 (mynd 2). Vísitala stofnsins árið 2016 var hærri en síðastliðin ár og mældist svipuð og árin 2012 og 2013. Þéttleiki rækju var tiltölulega jafn en lítill yfir nær allt rannsóknasvæðið með þeirri undantekningu að þéttleikinn var minni austast á svæðinu (mynd 3). Líkt og verið hefur í meira en áratug mældist lítið af ungrækju og sýna niðurstöðurnar að nýliðun er áfram mjög slök.
 
Líkt og undanfarin ár fékkst mikið af þorski á öllu rannsóknasvæðinu en magn grálúðu var mjög lítið.
 
Leiðangursstjóri í leiðangrinum var Ingibjörg G. Jónsdóttir og skipstjóri var Ásmundur Sveinsson.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?