Starfsstöð Hafrannsóknastofnunar á Hvammstanga flutti í liðinni viku í nýtt húsnæði á þriðju hæð að Höfðabraut 6. Fyrir eru ýmis þjónustufyrirtæki og opinberir aðilar með starfsemi í húsinu. Með flutningi þangað batnar aðstaða starfsfólks starfsstöðvarinnar frá því sem áður var og gefur aukna möguleika á samstarfi og samskiptum.
Alls starfa þrjú á starfsstöðinni á Hvammstanga og sinna þau selarannsóknum í samstarfi við Selasetur Íslands. Rannsóknaaðstaða verður áfram að Strandgötu 1 þar sem Selasetrið er með sýningaraðstöðu.