Ráðgjöf um aflamark á loðnu

Ráðgjöf um aflamark á loðnu

Bergmálsmælingar á stærð loðnustofnsins fóru fram á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundsyni dagana 6. september – 9. október.

Upprunalega var áætlað að leiðangrinum yrði lokið fyrir lok septembermánaðar. Umtalsverðar tafir urðu hinsvegar vegna bilana beggja rannsóknaskipanna auk þess sem nokkrar tafir urðu vegna slæmra veðurskilyrða.

Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur Grænland frá um 74°55’N og suðvestur með landgrunnskanti Grænlands að 64°50’N, en auk þess til Grænlandssunds, Íslandshafs, hafsvæðisins kringum Jan Mayen auk Norður- og Austurmiða (mynd 1 og mynd 2).

Ungloðna, sem myndar hrygningar- og veiðistofninn á vertíðinni 2018/2019, var vestast og sunnantil á svæðinu. Magn ungloðnu var víðast hvar lítið og ekkert fannst úti fyrir Norðurlandi. Einungis mældust rúmlega 26 milljarðar eða 219 þúsund tonn af ungloðnu.

Kynþroska loðna, sem myndar veiðistofn á vertíðinni 2017/2018, fannst víða í köntum og á landgrunni við Austur Grænland, í Grænlandssundi að landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum, en engin loðna fannst með landgrunnsbrún norðan Íslands. Eins og á undanförnum árum var dreifingin mjög vestlæg og fannst loðna nær ströndum Grænlands en áður hefur sést í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar á þessum slóðum. Alls mældust um 945 þúsund tonn af kynþroska loðnu í leiðangrinum.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2018 með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu. Í samræmi við ofangreinda aflareglu ráðleggur Hafrannsóknastofnun að hámarks aflamark á vertíðinni 2017/2018 verði 208 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun mun að vanda mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2018 og í ljósi þeirra mælinga endurskoða ráðgjöfina.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér í leiðangurs- og ráðgjafarskýslu.


Leiðangurslínur rs. Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar

Mynd 1. Leiðangurslínur rs. Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar

Dreifing loðnu

Mynd 2. Dreifing loðnu í leiðöngrum rs. Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?