Niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska að haustlagi 2016

Niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska að haustlagi 2016

Stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall) fór fram í 20. sinn dagana 29. september til 9. nóvember sl. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi. Alls var togað með botnvörpu á 375 stöðvum. Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og annara djúpfiska. Auk þess er markmiðið að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þeirra nytjastofna sem Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) nær yfir, og safna upplýsingum um útbreiðslu, líffræði og fæðu tegundanna. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson RE og togarinn Ljósafell SU voru notuð til rannsóknarinnar.
 
Niðurstöðurnar sem hér eru kynntar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi helstu nytjastofna við landið sem lýkur með ráðgjöf í júní 2017.

Þorskur

Heildarvísitala þorsks lækkaði talsvert frá árunum 2014 og 2015 og er  nú svipuð og árið 2013 (2. mynd) . Hluta lækkunarinnar má rekja til lítils árgangs frá 2013 og að meðalþyngdir sumra árganga hafa lækkað frá fyrra ári. Líklegt er að lækkunin sé að mestu vegna mæliskekkju líkt og var í vorralli milli áranna 2013 og 2014.
 
Vísitala ársgamals þorsks (árgangur 2015) í vorralli 2016 benti til þess að árgangurinn væri stór og er það staðfest í haustrallinu. Vísitala tveggja ára þorsks, þ.e. árgangsins frá 2014, er einnig há. Vísitölur þriggja til sex ára þorsks, árganganna frá 2010-2013 eru hins vegar lágar. Fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2016 gefa til kynna að hann sé undir meðalstærð.
 
Meðalþyngdir hækkuðu hjá 3, 4 og 6 ára þorski en lækkuðu í öðrum aldursflokkum frá fyrra ári (4. mynd). Hjá flestum aldursflokkum eru þær yfir meðaltali rannsóknartímans.
 
Mest fékkst af þorski djúpt norðvestur, norður og austur af landinu, líkt og undanfarin ár.
 
Heildarmagn fæðu í mögum allra lengdarflokka þorsks var það minnsta síðan mælingar hófust árið 1996 (6. mynd). Síðan 2012 hefur magn loðnu í þorskmögum verið mun minna en á tímabilinu 1996-2010. Líkt og undanfarin ár var mest af loðnu í þorskmögum út af vestanverðu Norðurlandi. Af annarri fæðu má nefna ísrækju, rækju, ljósátu, síld og kolmunna.

Ýsa

Stofnvísitala ýsu lækkaði frá 2015 og er nú svipuð og árin 1996-2000. Á árunum 2001-2006 hækkaði hún í kjölfar góðrar nýliðunar, en fór ört lækkandi næstu fjögur árin þar á eftir. Lækkunina í ár má rekja til lítilla árganga frá 2008-2013 (stærri en 40 cm).
 
Lengdardreifing sýnir að ýsa minni en 40 cm er undir meðaltali í fjölda. Vísitala árgangsins frá 2014 er nú undir meðaltali sem er töluverð breyting á fyrra mati en hann hefur verið talinn frekar stór  bæði samkvæmt vorralli og fyrri haustmælingum .  Vísitölurnar benda til að árgangar 2015 og 2016 séu undir meðalstærð.
 
Meðalþyngd eftir aldri hefur hækkað umtalsvert síðan 2010 og er um eða yfir meðaltali hjá 3-8 ára ýsu.
 
Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en eins og undanfarin ár mest fékkst af henni fyrir norðan land.

Gullkarfi

Heildarvísitala gullkarfa í haustmælingunni hefur hækkað jafnt og þétt  síðan 2001, sem er svipuð þróun og stofnmælingu botnfiska í mars . Eru vísitölur síðustu þriggja ára þær hæstu frá árinu 1996. Mæliskekkja í vísitölunum er yfirleitt há þar sem stór hluti aflans kemur í fáum togum. Afleiðing eru tilviljanakenndar sveiflur frá ári til árs þó þróunin s.l. 10 ára sé augljós. Í haustmælingunni í ár var mest af fiski á bilinu 30-45 cm. Mjög lítið fékkst af karfa minni en 30 cm líkt og undanfarin ár. Að venju fékkst gullkarfi mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum.

Djúpkarfi

Heildarvísitala djúpkarfa hækkaði árin 2014 og 2015 en lækkaði aftur árið 2016 og er nú svipuð og árunum 2007-2013. Vísitala ungfisks (minni en 30 cm) var mjög lág líkt og undanfarin ár og hefur lækkað mikið á tímabilinu. Djúpkarfa er að finna á landgrunnskantinum suður og vestur af landinu og var mest af honum fyrir suðvestan land.

Grálúða

Vísitala veiðistofns grálúðu (55 cm og stærri) hefur hækkað jafnt og þétt frá árunum 2004-2007 þegar hún var í lágmarki en er þó lægri en var á árunum 1997-2002.  Vísitala ungfisks (minni en 55 cm) hefur lækkað umtalsvert undanfarin þrjú ár samanborið við árin 2009-2013 þegar hún mældist sú hæsta frá því mælingar hófust árið 1996.
 
Í haustmælingunni var mest af grálúðu að finna djúpt út af Norður- og Austurlandi líkt og undanfarin ár, en samanborið við fyrri ár var hlutdeild grálúðu vestan við landið árið 2016 fremur lítil.

Aðrir bolfiskar

Stofnvísitölur steinbíts og hlýra hafa breyst lítið síðan 2010 og eru lágar. Stofnvísitala ufsa hækkaði frá 2009 til 2012 og hefur haldist svipuð síðan. Mest var af ufsa á lengdarbilinu 45-55 cm.
 
Vísitala skötusels fór ört lækkandi frá árinu 2010 til 2013 og hefur síðan þá mælst svipuð.
 
Stofnvísitala löngu og keilu eru háar. Stofnvísitala blálöngu er svipuð og fyrir ári síðan en hefur farið lækkandi frá árinu 2009 (19. mynd). Stofnvísitala gulllax hefur mælst svipuð frá árinu 2005 en þó eru breytingar á milli ára miklar.

Flatfiskar

Mæliskekkja í stofnvísitölum skarkola, þykkvalúru, langlúru og sandkola er oft mikil vegna þess að stór hluti aflans kemur á fáum stöðvum. Því eru tilviljanakenndar breytingar á milli ára miklar hjá þessum tegundum  (20. mynd) en þróun til lengri tíma nokkuð skýr. Undanfarin ár hafa vísitölur skarkola, þykkvalúru og langlúru verið frekar háar en vísitala sandkola lág. Mæliskekkja er mun lægri hjá skrápflúru sem fæst mjög víða. Vísitala skrápflúru lækkaði árið 2016 eftir að hafa hækkað á árunum 2008-2015, og er nú svipuð og árin 2007 og 2007 þegar hún var lægst.
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?