Niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum 2017

Niðurstöður úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum 2017

Stofnvísitölur þorsks, gullkarfa og löngu mældust háar miðað við síðustu þrjá áratugi. Vísitala ýsu er nú nálægt meðaltali tímabilsins, en vísitölur steinbíts eru lágar. Helstu markmið verkefnisins eru að fylgjast með breytingum á stærð, útbreiðslu og líffræðilegu ástandi botnlægra fiskistofna og hitastigi sjávar á landgrunninu. Nánari niðurstöður um stofnvísitölur, útbreiðslu,meðalþyngdir og hitastig sjávar má finna í skýrslunni Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum 2017: Framkvæmd og helstu niðurstöður (.pdf).
 
Niðurstöður stofnmælingar í mars eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Mat á stofnstærð helstu tegunda botnfiska og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í júní.
 
Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (marsrall) fór fram í 33. sinn dagana 25. febrúar til 18. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Barði NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?