Mat á meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum

Mat á meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum

Skýrsla um mat á meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum 2014 til 2017 er komin út. Í þessari samantekt var notast við gögn úr róðrum veiðieftirlits Fiskistofu yfir fjögurra ára tímabil, 2014-2017. Meðaflinn var metinn á fjóra vegu; án skiptingar, skipt upp eftir svæðum, skipt upp eftir dýpi og skipt upp eftir mánuðum, auk þess sem skráningar skipstjórnarmanna á meðafla voru teknar saman. Breytileiki í meðafla milli ára og áhrif handahófskenndar sýnatöku voru líka könnuð.

Algengustu sjávarspendýrin sem veiddust sem meðafli voru landselur, útselur og hnísa, á meðan algengustu fuglarnir voru æðarfugl, teista, langvía og skarfar. Munur á mati á meðafla var fremur lítill milli aðferða en þó var matið skipt upp eftir svæðum í flestum tilfellum lægst á meðan meðafli var metin mestur skipt upp eftir dýpi eða mánuðum en matið án skiptingar þar á milli.

Matið fyrir sjávarspendýr var lægst skipt upp eftir svæðum (3100 ± 1086 dýr), næst lægst án skiptingar (3570 ± 607 dýr), en matið skipt eftir dýpi var aðeins hærra (3620 ± 2860 dýr) og hæst var matið skipt upp eftir mánuðum (3850 ± 1577 dýr). Skráningar sjávarspendýra í afladagbækur voru mun minni eða 988 dýr árið 2017.

Mat á meðafla sjófugla fylgdi álíka mynstri, en matið var lægst skipt upp eftir svæðum (7210 ± 3030 fuglar), næst lægsta var það án svæðaskiptingar (8150 ± 1222 fuglar), matið skipt upp eftir dýpi kom þar á eftir (8800 ± 3962 fuglar) en hæst var matið skipt upp eftir mánuðum (9100 ± 3180 fuglar). Til samanburðar voru 2417 fuglar skráðir í afladagbækur grásleppubáta árið 2017.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?