Makrílleiðangri Árna Friðrikssonar lokið

Makrílleiðangri Árna Friðrikssonar lokið

nudaginn 31. júlí lauk mánaðarlöngum leiðangri r/s Árna Friðrikssonar sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Ísland.
 
Verkefnið er hluti af sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda í Norðaustur-Atlantshafi ásamt athugunum á magni átu og umhverfisþáttum. Þetta var áttunda sumarið sem þessi leiðangur er farinn. Í þetta sinn var Árni Friðriksson leigður í 5 sólarhringa til að sinna viðbótar rannsóknum á grænlensku hafsvæði.
 
Alls voru teknar 82 fyrirfram ákveðnar rannsóknastöðvar þar sem tekin voru stöðluð tog í efstu lögum sjávar með flottrolli til að meta magn makríls. Jafnframt yfirborðstogum voru umhverfisþættir mældir og átusýnum safnað með háfum. Í ár var 11 sinnum togað dýpra þar sem kolmunna varð vart og á 5 stöðvum voru framkvæmd samanburðartog. Bergmálsgögnum var safnað á milli rannsóknarstöðva til að meta magn síldar og kolmunna.
 
Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum sem safnað var í leiðangrinum og munu helstu niðurstöður verða kynntar undir lok mánaðarins í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum standa. Makríl var að finna úti fyrir Austurlandi, með suðurströndinni og upp með Vesturlandi en lítið sem ekkert var vart við hann norður af landinu. Bráðbirgðaniðurstöður sýna ívið meira magn og vestlægari útbreiðslu makríls við Ísland en í fyrra (1. mynd) sem er jafnframt hæsta gildi síðan athuganirnar hófust árið 2009.
 
Síld fannst nokkuð víða á rannsóknasvæðinu, norsk-íslensk síld austur og norður af Íslandi og íslensk sumargotssíld fyrir sunnan og vestan (2. mynd). Norður af Íslandi varð vart við töluvert af norsk-íslenskri síld allt að Vestfjarðamiðum. Skörun á útbreiðslu síldar og makríls var mest austan við land en einnig töluverð á grunnslóð sunnan og vestan lands þar sem makríll var í bland við íslenska sumargotssíld (3. mynd).
 
Ágætis upplýsingar um útbreiðslu hrognkelsa í úthafinu fást í leiðangrinum og líkt og fyrri ár veiddust hrognkelsi víðast hvar á rannsóknarsvæðinu (4. mynd). Þá var kolmunna að finna á hafsvæðinu á milli Íslands og Færeyja sem og suður og vestur af landgrunni Íslands.
 
Leiðangursstjórar í leiðangrinum voru Guðmundur J. Óskarsson í fyrri hluta og Sigurður Þ. Jónssson í þeim seinni og skipstjórar voru Heimir Örn Hafsteinsson í fyrri hluta og Guðmundur Bjarnason í þeim seinni.
 
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?