Hrognkelsi seld og send með flugi til Færeyja

Hrognkelsin undirbúin undir flutning Hrognkelsin undirbúin undir flutning

Síðastliðin fjögur ár hafa hrognkelsi ræktuð í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar að Stað í Grindavík verið seld til færeysku laxeldisstöðvarinnar P/F Hiddenfjord.

Samningur við Færeyingana hljóðar upp á afhendingu á 150.000 hrognkelsum á ári, sem flutt eru út með flugi í sérstökum flutningskössum, sem sjá má á myndinni hér að ofan. Gert er ráð fyrir að framleiðslan í ár verði um 220 þúsund hrognkelsi og að þau verði öll seld út.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Stofnfisk, sem hefur sett upp eigin aðstöðu til framleiðslu og selur einnig hrognkelsi til P/F Hiddenfjord. Fyrirhugað var að í fyllingu tímans myndi Stofnfiskur alfarið sjá um þessa framleiðslu, enda er það ekki hlutverk Hafrannsóknastofnunar. Laxeldisstöðin hefur hins vegar óskað eftir því að framleiðslunni verði haldið áfram.

Eins og gefur að skilja eru mörg handtökin við að ala, flokka og bólusetja 220.000 fiska og því fátt annað sem kemst að í tilraunaeldisstöðinni þessa dagana.

Stefnt er að rannsóknum á því hvernig auka megi lifun og gæði hrognkelsanna svo þau nýtist sem best við aflúsun laxa. Þær rannsóknir munu nýtast íslensku fiskeldi sem og frændum okkar í Færeyjum.

Eldisker hrognkelsa


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?