Út er komin skýrslan Stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN) 1996-2018 þar sem farið er yfir helstu niðurstöður rannsóknaverkefnisins stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum (netarall) sl. 23 ár og gerð grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á sýnatöku og dreifingu stöðva.
Frá árinu 2011 hefur stofnvísitala þorsk verið í hámarki á flestum svæðum eftir að hafa verið í lágmarki árin 2002-2006. Kanturinn austan við Vestmannaeyjar sker sig úr því þar var afli í hámarki fyrstu ár rannsóknartímabilsins, en mjög lítið hefur fengist þar af þorski frá árinu 2010. Undanfarin ár hefur fengist meira af stærri fiski en árin 1996-2002 sem er í samræmi við hærri aldur og stærð hrygningarstofns samkvæmt stofnmati. Ágætt samræmi er á þróun stofnvísitalna úr SMN og stofnmælingum með botnvörpu (SMB og SMH), sem sýna í samræmi við stofnmat að hrygningarstofn þorsks hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2007.
Breytingar hafa orðið á vaxtarhraða (þyngd miðað við aldur) hjá þorski á rannsóknartímanum. Hann hefur aukist við vestanvert landið og við Norðurland, en minnkað fyrir suðaustan land. Hlutfall ókynþroska fisks hefur lækkað frá fyrstu árum rannsóknarinnar en kynþroskahlutfall eftir aldri hefur hins vegar ekki breyst mikið hjá algengustu aldurshópum.
Magn ufsa hefur farið vaxandi undanfarin ár og er 7–11 ára ufsi algengastur í SMN. Ýsa veiðist á öllum svæðum og fæst mest af 60 cm og stærri ýsu. Mestur ýsuafli fékkst á árunum 2005-2008, 2011-2013 og 2017-2018.
Í skýrslunni eru einnig sýndar fjölda- og lífmassavístölur helstu fisktegunda er fást í netaralli, ásamt útbreiðslu krabba, sjófugla og spendýra.