Berghlaup í Hítará

Aðfaranótt laugardagsins 7. júlí sl. varð stórt berghlaup úr Fagradalsfjalli vestan Hítarár á Mýrum. Bergfyllan fyllti farveg Hítarár á rúmlega kílómeters kafla skammt ofan við Kattarfoss. Við þennan atburð stíflaðist farvegur árinnar alveg með þeim afleiðingum að mjög lítið rennsli er í farveginum frá skriðufallinu að ármótum Tálma hliðarár Hítarár. Ofan skriðunnar fór fljótlega að myndast lón í farvegi Hítarár ofan stíflunnar og sunnudaginn 8. júlí fór áin að renna inn í nýjan farveg framhjá skriðunni og sameinast hliðaránni Tálma nálægt upptökum árinnar. Ljóst er að ásýnd Hítarár á Mýrum er gjörbreytt eftir þennan fordæmalausa atburð og á næstu vikum og mánuðum mun koma nánar í ljós áhrif á lífríki, fiskframleiðslu og veiði í ánni.

Sumarið 2017 fór fram ítarleg athugun á framleiðslugetu vatnasvæðisins með mati á búsvæðum árinnar í tengslum við fyrirhugað arðskrármat og hjálpar sú vinna mjög við mat að meta líkleg áhrif af berghlaupinu á lífríki árinnar.

Fiskstofnar

Hítará á Mýrum er í hópi með bestu veiðiám landsins. Lax er ríkjandi í veiðinýtingu í ánni, en veiði á sjóbleikju sem áður var umtalsverð, hefur hrunið undanfarin ár. Langtíma meðalveiði á laxi er 475 laxar, en laxveiði hefur vaxið mjög í ánni síðustu ár og er um 750 laxar undanfarin 15 ár (mynd 1). Áin er að jafnaði veidd með 6 stöngum frá ósi Hítarár að Hítarvatni og einnig er veitt í hliðaránum Tálma og Grjótá.

Áhrif berghlaups á framleiðslugetu Hítarár

Sumarið 2017 fór fram mat á búsvæðum Hítarár vegna arðskrármats í Veiðifélagi Hítarár. Hítará er flókið vatnasvæði með fjölmörgum hliðarám og lækjum. Aðaláin Hítará er 32,3 km að lengd og um 1 milljón fermetra að flatarmáli. Hliðarárnar eru alls 40,2 km að lengd og tæplega 500 þús. m2. Lagt hefur verið mat á gæði farvega til fiskframleiðslu samkvæmt aðferðafræði sem beitt hefur verið við sambærilegar athuganir hérlendis. Röskuð svæði ná frá ármótum Tálma og að efri enda lóns sem myndast hefir ofan við berghlaupið og er þetta svæði alls um 10 km að lengd. Þessi svæði eru að stærstum hluta á þurru og í lóninu sem myndast ofan við stífluna er ekki gert ráð fyrir góðum skilyrðum til framleiðslu laxaseiða, en lónið gæti gagnast silungi. Áætlað er röskuð svæði séu um tæplega 30% af framleiðslugetu Hítarár sjálfrar en um 20% af framleiðslugetu alls vatnasvæðisins (tafla 1). Nýr farvegur hefur myndast í Hítará frá neðri enda lónsins að ármótum Tálma. Óljóst er hver framleiðslugeta þessa farvegar verður í framtíðinni.

Mynd 1. Laxveiði í Hítará tímabilið 1974 til 2017.
Mynd 1. Laxveiði í Hítará tímabilið 1974 til 2017.

 

Tafla 1. Mat á framleiðslugetu Hítarár og minnkun á framleiðslugetu vegna berghlaupsins.

Tafla 1. Mat á framleiðslugetu Hítarár og minnkun á framleiðslugetu vegna berghlaupsins.

Áhrif á laxveiði

Á raskaða svæðinu eru 8 veiðistaðir neðan Kattarfoss og um 10 skráðir veiðistaðir ofan Kattarfoss. Í Hítará eru ríflega 100 skráðir veiðistaðir. Ekki liggja fyrir aðgengilegar upplýsingar um veiði í þessum stöðum. Á vatnasvæðinu er veitt með 6 stöngum og því minnkar aðgengi veiðimanna verulega að veiðistöðum eftir berghlaupið. Óvíst er hvort einhverjir veiðistaðir myndist með tíð og tíma í nýja farveginum, eða hvort aukið rennsli í Tálma breyti þar aðstæðum til veiða. Búast má við því skollitun verði nokkuð meðan að nýr farvegur er að mótast og einnig gæti bakkarof átt sér stað vegna aukins rennslis í Tálma. Slíkt getur haft neikvæð áhrif á aðstæður til veiða. Til lengri tíma litið er líklegt að laxgengd og laxveiði minnki í takt við minni framleiðslugetu árinnar.

Mótvægisaðgerðir

1. Veiða og sleppa. Því er beint til Veiðifélag Hítarár, leigutaka árinnar og veiðimanna að sleppa laxi í auknum mæli í veiðinni til að að styrkja hrygningarstofn árinnar.
2. Gönguseiðum verði sleppt í ána frá og með árinu 2020 til að auka laxgengd vegna minnkunar á náttúrulegri framleiðslu. Komið verið fyrir klakkistum á neðri svæði árinnar í samráði við SVFR og veiðimenn.
3. Fylgst verði vel með því hvort aukið rennsli í Tálma hafi áhrif á fiskför upp Tálmafossa. Ef svo er þarf að bregðast við því t.d. með fleygun á fiskveg við fossana.
4. Skoðað verði hvort unnt verði að búa til nýja veiðistaði og er þá sérstaklega horft til Tálma.
5. Stækkun uppeldissvæða er að einhverju leyti möguleg. Rafstöðvastífla ofarlega í Melsár stöðvar þar fiskför og mætti fjarlægja. Einnig mætti skoða fiskvegagerð í Grjóta.

Vöktun og rannsóknir

Í kjölfar þessa miklu atburða sem breytt hafa ásýn Hítarár er mikilvægt að vakta lífríki árinnar og tryggja að tiltæk búsvæði nýtist sem best til að hámarka afrakstrursgetu þeirra. Hafrannsóknastofnun mun að sjálfsögðu áfram vera tiltæk vegna rannsókna og ráðgjafar veiðifélagi og leigutökum.

Berghlaup í Hítará 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?