Myndin er af heimasíðu leiðangursbloggs.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er farið úr höfn til þátttöku í árlegum fjölþjóðlegum leiðangri, svokölluðum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi (IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas). Þetta er ellefta árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Líkt og á síðasta ári er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril flestra skipanna á slóðinni: https://skip.hafro.is/iessns/.
Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi. Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins frá frumframleiðni sjávar til útbreiðslu hvala. Meðal nýrra verkefna í ár er umfangs mikil sýnasöfnun fyrir tvö alþjóðleg rannsóknaverkefni sem beinast að miðsjávarlífríki hafsins. Verkefnin kallast SUMMER (https://summerh2020.eu/) og MEESO (https://www.meeso.org/) og eru bæði styrkt af Evrópusambandinu.
Leiðangurinn stendur í 30 dag og verða sigldar um 5500 sjómílur eða rúmlega 10 þús. km. Um borð eru 14 vísindamenn og 17 manna áhöfn. Eins og fyrri ár mun leiðangursfólkið halda úti bloggi þar sem hægt verður að fylgjast með rannsóknum um borð og daglegu lífi. Bloggið er á slóðinni: pelagicecosystemsurvey.wordpress.com.
James Kennedy er leiðangursstjóri 1. -13. júlí og Anna Ólafsdóttir verður leiðangursstjóri 13.-30.júlí.