Í nýrri grein í tímaritinu PLoS ONE eru birtar niðurstöður rannsókna á útbreiðslu og stofngerð ljósátu umhverfis Ísland. Höfundar hennar eru Teresa Silva, doktorsnemi hjá Hafrannsóknastofnun, Ástþór Gíslason og Ólafur S. Ástþórsson, báðir sérfræðingar við sömu stofnun, og Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Ljósátan er mikilvægur þáttur í lífríkinu og undirstöðufæða margra nytjastofna. Rannsóknirnar sýndu að aðstæður í hafinu, einkum sjávarhiti og dýpi, hafa mikil áhrif á útbreiðslu, æxlun og fjölda tveggja algengustu tegundanna í hafinu umhverfis landið, augnsílis og náttlampa. Einkum virðast áhrif hlýs og næringarríks Atlantssjávar vera mikilvæg fyrir þroska og lífsferil tegundanna. Rannsóknirnar mynda grunn að frekari rannsóknum á vistkerfi Íslandsmiða. Þær sýna jafnframt fram á mikilvægi þess að frekari rannsóknir verði gerðar á tengslum umhverfisþátta og útbreiðslu ljósátutegunda umhverfis Ísland. Slíkar rannsóknir geta verið mikilvægur liður í veiðiráðgjöf byggðri á vistkerfisnálgun.
Greinina má nálgast á vef PLos ONE