Mynd: Svanhildur Egilsdóttir
Ríkiskaup, fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar, hefur auglýst eftir tilboðum vegna tímabundinnar leigu á skipum til bergmálsmælinga á stærð hrygningarstofns loðnu í vetur.
Um er að ræða útboð vegna hefðbundinna mælinga sem verða notaðar til grundvallar að lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna loðnuveiða á vertíðinni 2020/21. Útboðin verða með möguleika á framlengingu til fleiri ára ef aðilar sammælast um það. Gert er ráð fyrir að leigja fjögur skip í samtals 49 daga. Þau munu ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni verða við mælingar og er gert ráð fyrir að ná tveimur heildarmælingum með þessum hætti.
Gert er ráð fyrir að mælingar geti átt sér stað á tímabilinu frá 15. janúar til 10. mars en með fyrirvörum um sveigjanleika. Tímasetningar munu m.a. ráðast af útkomu forkönnunar á Árna Friðrikssyni í byrjun árs.
Útboðsgögn má sækja á vef Ríkiskaupa með þessum hlekk.