Stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum

Ljósm. Eric Dos Santos Ljósm. Eric Dos Santos

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem greint er frá helstu niðurstöðum stofnmælingar hrygningarþorsks með þorskanetum (netarall) sem fram fór í 24. sinn dagana 24. mars til 29. apríl sl.

Stofnvísitala þorsks er svipuð og síðastliðin tvö ár, en hún hefur verið há frá árinu 2011 eftir að hafa verið í lágmarki árin 2002‐2006. Í Breiðafirði og fyrir suðaustan land hefur stofnvísitalan aldrei verið hærri í netaralli. Kanturinn fyrir austan Eyjar sker sig áfram úr og lítið fæst nú af þorski þar. Stofnvísitalan lækkar talsvert í Fjörunni frá síðasta ári, sem hugsanlega má að einhverju leyti rekja til þess að gagnasöfnun þar náði yfir óvenju langan tíma. Síðastliðinn áratug hefur vægi hrygningarsvæðanna í Faxaflóa og Breiðafirði í stofnvístölu hrygningarþorsks aukist, en hækkun hennar má að stórum hluta rekja til þessara svæða. Undanfarin ár hefur einnig orðið aukning á hrygningu þorsks fyrir suðaustan og norðan land. Ágætt samræmi er á þróun stofnvísitalna þorsks úr SMN og stofnmælingum með botnvörpu (SMB og SMH).

Ástand þorsks (hér metið sem slægð þyngd og þyngd lifrar miðað við lengd) er heldur lakara í ár en í fyrra. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurs og lengdarflokka. Verulegar breytingar hafa orðið á vaxtarhraða (þyngd miðað við aldur) þorsks, sem hefur aukist við vestanvert landið og við Norðurland, en minnkað fyrir suðaustan land frá því netarall hófst. Kynþroskahlutfall eftir aldri breytist ekki mikið hjá algengustu aldurshópum milli ára. Hlutfall þorskhrygna á stigi 2 (kynþroska en ekki rennandi) var hærra í ár á flestum svæðum sem bendir til þess að hrygning hafi verið heldur seinna á ferðinni.

Magn ufsa hefur farið vaxandi undanfarin ár og stofnvísitala ufsa hefur aldrei verið hærri en í ár. Mikil aukning á ufsa í Fjörunni og á Bankanum skýrir þessa hækkun, en minni breytingar voru á öðrum svæðum. Hækkunina má að mestu rekja til 7–11 ára ufsa sem er algengastur í SMN. Hlutfall ufsa á kynþroskastigi 3 (rennandi) var hátt í Fjörunni og á Bankanum sem bendir til þess að hrygning ufsa á þessum svæðum hafi verið seinna en oft áður, sem gæti að hluta til skýrt mikla hækkun á stofnvísitölu ufsa á þeim svæðum.

Í skýrslunni eru sýndar lífmassavístölur helstu fisktegunda er fást í netaralli, ásamt útbreiðslu krabba, sjófugla og sjávarspendýra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?