Samspil fiska og kóralla

Samspil fiska og kóralla

Á Íslandsmiðum má finna kaldsjávar kóralsvæði á landgrunnskantinum fyrir sunnan land. Í nýlegri grein sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, þeir Stefán Áki Ragnarsson og Julian Mariano Burgos, birtu í tímaritinu Marine Environmental Research er fjallað um rannsókn þar sem tengsl fiska og kóralsvæða voru könnuð. Þessi rannsókn var að miklu leyti fjármögnuð af Evrópuverkefninu CoralFISH sem Hafrannsóknastofnunin tók þátt í.

Rannsóknin var framkvæmd í Lónsdjúpi sem er staðsett á kantinum suðaustur af Íslandi, en þar finnast kóralar helst á hryggjum sem ganga þvert á djúpið. Á árunum 2009 og 2010 fóru fram tveir leiðangrar þar sem samsetning og þéttleiki fiska sem veiddust á línu á hryggjunum innan Lónsdjúps sem og utan þeirra var könnuð. Algengasta tegundin sem veiddist var keila, og var afli hennar tvöfalt meiri á hryggjunum en utan þeirra. Gerð fiskisamfélaga á hryggjunum var frábrugðin því sem var að finna utan þeirra. Þeir þættir sem útskýrðu þennan mun þegar unnið var úr gögnunum með margþáttagreiningu, var botnlag, staðsetning innan rannsóknarsvæðis, sem og magn kórals. Fæða keilu sem veiddist á hryggjunum samanstóð m. af fiski og margvíslegum kröbbum meðan að humar var ríkjandi utan þeirra. Á línuna veiddust margvíslegir kaldsjávarkóralar sem og ýmsar aðar viðkæmar tegundir botndýra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?