Ljósm. Haraldur Einarsson
Nýlega byrtist greinin „ Comparing the size selectivity of a novel T90 mesh codend to two conventional codends in the northern shrimp (Pandalus borealis) trawl fishery“ í vísindaritinu Aquaculture and Fisheries.
https://doi.org/10.1016/j.aaf.2020.09.005
Höfundar eru Haraldur Arnar Einarsson frá Hafrannsóknastofnun, Zhaohai Cheng og Shannon M. Bayse frá Fisheries and Marine Institute, Memorial Universtiy, Newfoundland Canda, Bent Hermann frá SINTEF Ocean, Danmörku og University of Tromsø, Noregi ásamt Paul D. Winger einnig frá Fisheries and Marine Institute, Memorial University, Newfoundland Canada. En þetta er önnur greinin á þessu ári sem hluti af þessum hópi hefur gefið út um notagildi þvernets við vörpuveiðar. Sú sem kom út í sumar var nefnd „Out with the old and in with the new: T90 codends improve size selectivity in the Canadian redfish (Sebastes mentella) trawl fishery“ gefin út af Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Scienses og hægt að nálgast á https://doi.org/10.1139/cjfas-2020-0063.
Vörpupokar af þessari gerð hafa á síðustu árum notið aukinna vinsælda í íslenskum togveiðum enda virðist undirmálsfiskur skiljast betur út úr slíkum poka og jafnframt eru meiri gæði á aflanum. Þessi útfærsla veiðarfæra hefur verið rannsóknarefni hjá Hafrannsóknastofnun en einnig hafa samskonar stofnanir erlendis veit þessari þróun á Íslandi athygli og víða er verið að birta niðurstöður rannsókna á þessari tegund vörpupoka við ýmiskonar veiðar.
Rækjupokinn sem hér er borinn saman við algenga vörpupoka, var hannaður af Hampiðjunni, en fyrirmyndin er frá bolfiskpoka sem er orðin algengur í notkun flotans. Í slíkum poka er þvernet fellt á fjórar leisislínur, kallaðar kviklínur, sem gerir það að verkum að netið er eilítið slakt í drætti en ekki undir átaki eins og venja er. Netinu er svo snúið í 90 gráður og því engu breytt í möskvastærð, en þaðan kemur nafnið „þvernet“. Við þessa breytingu haldast möskvarnir alltaf opnir og smárækja á greiðari leið út en einnig smáfiskur eins og seiði. Vegna óskar frá rækjuveiðimönnum um að slíkir pokar væru leyfðir við rækjuveiðar var farið í mælingu á kjörhæfni hans og borið saman við aðra poka sem notaðir hafa verið í rækjuveiðum.
Síðupoki, sem hvað lengst hefur verið notaður, en er ekki notaður í innfjarðarrækju, sýndi óverulega virkni við útskilnað smárækju. Leggpoki sem lengst af hefur verið heimilaður í reglugerð við veiðar á innfjarðarækju sýndi nokkra virkni, þó ekki góða, en í ljós kom mikill breytileiki í útskilnað á smárækju. Nýja hönnunin sem mæld var, sýndi mun minn breytileika og virðist skilja best út smárækju. Samanburður er þó örðugur þar sem breytileiki er það mikill í mælingum á hinum pokunum. Það virðist þó vera ljóst að ný gerð af poka sé framfaraskref í umgengni við sjávarauðlindina.