Ráðgjöf fyrir úthafskarfa dregin til baka

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur dregið til baka ráðgjöf fyrir úthafskarfa sem birt var þann 9. nóvember sl og birt var á vef Hafrannsóknastofnunar í gær. Ráðgjöfin var sú sama og gefin var 2016 eða að veiðar skyldu ekki stundaðar úr stofnum efri og neðri úthafskarfa. Ástæða þess að ráðgjöfin er dregin til baka er sú að gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vinnsluferli stofnmats og ráðgjafar innan ráðsins.

Leiðangrar til að meta stærð stofnsins hafa verið farnir annað hvert ár frá árinu 1999, síðast árið 2018. Niðurstöður þessara leiðangra sýna að stofnarnir hafa minnkað mikið allt tímabilið.

Ekki hefur verið samkomulag milli veiðiþjóða um skiptingu afla um langt skeið. Jafnframt hefur verið ágreiningur um stofngerð og telja Rússar að í Grænlandshafi sé einungis einn stofn og að ástandið sé mun betra en ICES hefur talið. Hafa þeir því úthlutað veiðiheimildum til rússneskra skipa í samræmi við það og þær heimildir verið langt umfram ráðlagðan heildarafla.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?