Ný skýrsla um meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Ný skýrsla um meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum er komin út. Þessi skýrsla byggir á skýrslu sem gefin var út árið 2018, með því að bæta við gögnum úr 102 eftirlitsróðrum sjóeftirlits Fiskistofu sem farnar voru 2018, og því er unnt að byggja meðaflamatið á 5 ára meðaltali og rétt tæplega 300 eftirlitsróðrum. Líkt og í skýrslunni frá 2018 var meðaflinn metinn á fjóra vegu; án skiptingar, skipt upp eftir svæðum, skipt upp eftir dýpi og skipt upp eftir mánuðum, auk þess sem skráningar skipstjórnarmanna á meðafla voru teknar saman. Breytileiki í meðafla milli ára var líka kannaður. Fjölþáttagreining var framkvæmd á gögnunum til að kanna mikilvægi svæða, dýpis og mánaða á meðaflatíðni, en slík greining var ekki framkvæmanleg áður vegna skorts á gögnum.

Í heildina litið, samkvæmt gögnum frá öllum fimm árum rannsóknarinnar, var meðal meðaflatíðni sjávarspendýra um 1 dýr í hverjum eftirlitsróðri, og meðal meðaflatíðni fugla um 2.7 fuglar í róðri. Einhver meðafli var í 66% eftirlitsróðra, þar sem 40% róðra var með meðafla sjávarspendýra og 46% róðra með sjófugla. Algengustu sjávarspendýrin sem veiddust sem meðafli voru landselur, útselur og hnísa, á meðan algengustu fuglarnir voru æðarfugl, teista, langvía og skarfar. Þessar tegundir voru einnig mest skráðar í afladagbækur sjómanna.

Niðurstaða fjölþáttagreiningar bendir til að grásleppuveiðisvæði sé sá þáttur sem prófaður var sem skiptir hvað mestu máli í að útskýra breytileika í meðafla, og því er matið skipt upp eftir svæðum líklega raunhæfast af mötunum í skýrslunni.

Töluverðar sveiflur voru í metnum meðafla milli ára hjá nokkrum tegundum, sérstaklega hjá útsel, langvíu og æðarfugli. Þó voru sömu tegundir algengasti meðaflinn öll fimm árin. Þetta bendir til að breytileiki milli ára sé aðallega vegna munar á þekju eftirlitsins, og þeirri staðreynd að hjá sumum tegundum er meðafli nokkuð sjaldgæfur viðburður, en magn mikið þegar það gerist, sem leiðir til mikils breytileika milli ára. Þetta staðfestir einnig þörfina á því að nota fimm ára meðaltöl við meðaflamatið.

Ný stofnstærðarmöt landsels, útsels og dílaskarfs sýna nokkra hækkun frá síðasta mati þrátt fyrir nokkuð háa meðaflatíðni. Mikilvægt er þó að vakta áfram bæði stofnstærð og meðaflatíðni þessara tegunda, þar sem stofnstærð þeirra er lítil og viðkvæm fyrir breytingum í umhverfinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?