Makrílstofninn hefur aldrei mælst stærri

Makrílstofninn hefur aldrei mælst stærri

Niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var á tímabilinu 1. – 31. júlí 2016 liggja nú fyrir.  Markmið leiðangursins er að kortleggja útbreiðslu og meta lífmassa makríls, síldar og kolmunna í Norðaustur Atlantshafi meðan á sumarætisgöngum þeirra stendur. Einnig var ástand sjávar og þéttleiki átustofna metið í leiðangrinum líkt og undanfarin ár. Fimm skip tóku þátt í leiðangrinum, R/S Árni Friðriksson frá Íslandi, eitt skip frá Færeyjum og frá Grænlandi auk  tveggja skipa frá Noregi. Þetta er áttunda sumarið sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum.
 
Magn og útbreiðsla makríls á svæðinu var metin út frá afla í stöðluðum yfirborðstogum sem tekin voru með reglulegu millibili á um 3,0 milljón ferkílómetra hafsvæði (Mynd 1) sem var 0,3 milljón ferkílómetra stækkun frá fyrra ári. Heildarvísitala makríls var metin 10,2 milljón tonn sem er hæsta mat frá upphafi mælinganna sumarið 2007 og þriðjungs aukning frá 2015. Vísitala makríls innan íslenskar efnahagslögsögu var 3,1 milljón tonn sem er tæp 31% af heildarvísitölu stofnsins (tafla 1). Í samanburði við 2015, þá jókst lífmassi makríls í íslenskri efnahagslögsögu um 200 þúsund tonn en hlutfallið í íslenskri lögsögu þá var hærra (36%). Í mælingunni voru þrír árgangar mest áberandi; árgangur 2010 (17% af heildarfjölda einstaklinga), 2011 (20%) og 2014 (17%). Þessi háa vísitala á fjölda tveggja ára (2014 árgangur) er því sterk vísbending um áframhaldandi góða nýliðun í makrílstofninum.
 
Makríll fannst á mest öllu rannsóknasvæðinu og náðist að mestu að staðsetja útbreiðslumörk makríls nema suðaustast á svæðinu þ.e. í Norðursjó og norðan Bretlandseyja (mynd 2). Mestur þéttleiki mældist um miðbik og á norðvestur hluta hafsvæðisins, við suður- og vesturströnd Íslands, og við austurströnd Grænlands. Þegar útbreiðslan er borin saman við niðurstöður fyrri ára þá mældist nú meira af makríl á norður-, norðvestur- og vesturhluta útbreiðslusvæðisins. Þéttleiki makríls við Ísland var mestur vestan við landið, líkt og var árin 2013 og 2014 en í fyrra var hann mestur sunnan við landið.
 
Magn norsk-íslenskrar síldar í júli 2016 var metið með bergmálsaðferð og reyndist það tæpir 19 milljarðar einstaklinga sem svarar til 6,6 milljón tonna. Þessi mæling er í góðu samræmi við mælingar á stofninum í maí s.l. þegar mældust rúmir 18 milljarðar einstaklinga. Niðurstöðurnar sýna að stóri árgangurinn frá 2004 er ennþá um 23% af veiðistofninum og árgangar þar á eftir eru litlir.  Útbreiðsla stofnsins var svipuð og undanfarin ár þar sem mesti þéttleikinn var norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Ísland og í kringum Jan Mayen (mynd 3).
 
Í ár var lögð aukin áhersla á að fylgjast með útbreiðslu kolmunna og mæla magn hans. Tilgangurinn var að fá vísitölur til nota við stofnmat Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í framtíðinni.  Kolmunnavísitalan mældist um 2,3 milljón tonn eða um 600 þúsund tonnum lægri en í alþjóðlegum leiðangri á hrygningarslóð kolmunna síðastliðið vor. Kolmunni fannst á öllu rannsóknarsvæðinu nema í kaldari sjó frá Grænlandi, milli Íslands og Jan Mayen og að Norðausturlandi (mynd 4).
 
Nokkur breyting var á umhverfisskilyrðum milli ára. Yfirborðshiti sjávar mældist 1 – 2 °C hærri í júlí 2016 en sumarið 2015 á mest öllu hafsvæðinu. Eins var yfirborðshitinn 2016 um 1 – 2 °C hærri en langtímameðaltal síðustu 20 ára fyrir júlí mánuð. Vísitala um magn dýrasvifs í austur hluta rannsóknarsvæðisins, eða í Noregshafi, var ívið hærra í ár en 2015. Hins vegar var vísitala fyrir vestur hluta svæðsins, þ.e.a.s. sunnan, norðan og vestan Íslands og við Grænland, helmingi lægri nú en í júlí 2015.
 
Niðurstöður leiðangursins eru notaðar innan ICES, ásamt öðrum gögnum, við mat á stofnstærð makríls. Ýmis frekari úrvinnsla á gögnum sem safnað var fer fram á næstu mánuðum og aflaráðgjöf fyrir næsta ár á grundvelli fyrirliggjandi gagna mun verða kynnt í október n.k.
 
 

Tafla sem sýnir flatarmál rannsóknarsvæðisins og mat á vísitölu makríls eftir lögsögum í makrílleiðangrinum 2016. Flatarmál er reiknað fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) þar sem makríll veiddist

Lögsögur eða svæði Flatarmál (í þús. km) Vísitala (í þús. tonna) Vísitala (%)
Evrópusambandið 101 401 3,9 %
Noregur 726 1843 18,0%
Ísland 644 3134 30,6%
Færeyjar 268 949 9,3%
Jan Mayen 205 663 6,5%
Alþjóðasvæði, norðanvert 280 1356 13,3%
Alþjóðasvæði, vestanvert 212 734 7,2%
Grænland 424 1026 10%
Spitzbergen 141 127 1,2%
Alls 3001 10233 100%
 
 
 
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?