Loðnustofninn mælist lítill

Leiðangurslínur rs. Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar ásamt dreifingu loðnu Leiðangurslínur rs. Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar ásamt dreifingu loðnu

Bergmálsmælingar á stærð loðnustofnsins fróru fram á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni dagana 9. september til 5. október sl. Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur Grænland frá um 73°15’N og suðvestur með landgrunnskanti Grænlands að 63° 30’N, en auk þess til Grænlandssunds, Íslandshafs og Norðurmiða (Mynd).
 
Ungloðna, sem myndar hrygningar- og veiðistofninn á vertíðinni 2017/2018, var vestast og sunnantil á svæðinu. Magn ungloðnu var víðast hvar mjög lítið og ekkert fannst úti fyrir Norðurlandi. Einungis mældust rúmlega 9 milljarðar eða 88 þúsund tonn. Því benda niðurstöður leiðangursins til þess að árgangur 2015 sé mjög lítill. Samkvæmt aflareglu þarf fjöldinn að vera yfir 50 milljörðum til að hægt sé að mæla með upphafsaflamarki fyrir vertíðina 2017/2018.
 
Fullorðin loðna fannst víða í köntum og á landgrunni við Austur Grænland, í Grænlandssundi að landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum, en engin loðna fannst með landgrunnsbrún norðan Íslands. Lóðningar voru einnig yfirleitt mjög gisnar og einungis mældust 137 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Eins og kunnugt er bentu mælingar á ungloðnu haustið 2015 til þess að veiðistofninn á komandi vertíð yrði lítill og í samræmi við samþykkta aflareglu var ákveðið að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar haustsins 2016 gæfu tilefni til endurskoðunar.  Mælingar undanfarinna vikna á stærð loðnustofnsins staðfesta þær vísbendingar.
 
Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2017 með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu.
 
Í samræmi við ofangreinda aflareglu ráðleggur Hafrannsóknastofnun að engar loðnuveiðar verði stundaðar á vertíðinni 2016/2017.
Hafrannsóknastofnun mun að vanda mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2017 og í ljósi þeirra mælinga endurskoða ráðgjöfina.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?