Kóralþörungabúsvæði könnuð á Vestfjörðum

Mynd tekin úr leiðangrinum við Kaldalón að Æðey. Mynd tekin úr leiðangrinum við Kaldalón að Æðey.


Vestfirðir skörtuðu sínu fegursta fyrir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar sem heimsóttu firðina um miðjan ágústmánuð.

Ekki síst voru fögur og fjölskrúðug kóralþörungabúsvæði sem leiðangurinn kannaði á hafsbotni, bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum.

Kóralþörungar með hátt verndargildi

Kóralþörungar eru kalkkenndir rauðþörungar sem mynda hríslur sem minna á kórala. Þeir geta setið lausir á sjávarbotni eða vaxið sem hrúður, á steinum eða skeljum.

Kóralþörungarnir vaxa mjög hægt og eru fallega bleikir þegar þeir eru lifandi en verða hvítir þegar þeir deyja. Greinóttir kóralþörungar mynda afar viðkvæm búsvæði, hýsa fjölbreytilegt lífríki og hafa hátt verndargildi.


Mynd 1. Mynd tekin af kóralþörungum á hafsbotni.

Svæðin mynduð og sýni sótt

Byrjað var á því að sigla að Höfðabót og Veiðileysufirði í Jökulfjörðum og svæðin skoðuð með myndavél sem var dregin á eftir skipinu. Þar var leitað að lifandi og dauðum þörungum og merktir heppilegir staðir til sýnatöku. Þetta var endurtekið við Æðey og Kaldalón í Ísafjarðardjúpi. Síðar var snúið aftur á staðina sem virtust lofa góðu. Þar stukku kafararnir út í og sóttu sýnin. Sýnin voru skoðuð um borð og gengið frá þeim þannig hægt væri að vinna betur úr þeim í landi.


Myndband 1. Upptaka úr myndavél leiðangursins af kóralþörungum á botni Ísafjarðardjúps.

Mynd 2. Mynd af kóralþörungasýnum áður en þeim var pakkað saman.

Kóralþörungar við Íslandsstendur

Leiðangurinn var hluti af verkefni sem safnar grunnupplýsingum um kóralþörunga við Íslandsstrendur. Upplýsingarnar nýtast til að stýra nýtingu á grunnsævi og leggja drög að verndun búsvæða.

Í verkefninu er ætlunin að greina hvaða þörungar mynda búsvæðið og skoða hvaða plöntur og dýr eru í samlífi við þá. Einnig er athugað hvaða þættir í umhverfinu stuðla að myndun kóralþörungabúsvæða til að spá fyrir um dreifingu þeirra við landið.

Vel heppnaður leiðangur í blíðskapar veðri

Heppni lék við hópinn og var glampandi sól, blár himinn, og lygn sjór svo gott sem allan leiðangurinn. Þá leið varla sá dagur að ekki sást til hvala. Leiðangurinn tókst vel og skilaði af sér fullt af sýnum og myndefni sem verður unnið úr á næstu mánuðum.


Myndband 2. Hér má sjá tvo hnúfubaka, tveir þeirra fjölmörgu hvala sem sáust í leiðangrinum.

Rannsóknin er styrkt af Rannís og Íslenska kalkþörungafélaginu.

Fleiri myndir úr leiðangrinum

      

      


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?