ICES veitir ráð um hámarksafla ársins 2019 í makríl og kolmunna

Í dag veitti Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráð um veiðar ársins 2019 fyrir kolmunna og makríl. Vanalega eru á sama tíma veitt ráð um afla næsta árs í norsk-íslenskri síld en þar sem unnið er að endurskoðun aflareglu í síld mun ICES ekki veita ráð um hámarksafla fyrr en 23. október næstkomandi.

Makríll

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 318 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 551 þúsund tonn og er því um að ræða rúmlega 40% samdrátt í tillögum ráðsins um afla næsta árs. Áætlað er að heildarafli ársins 2018 verði ríflega ein milljón tonn.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Kolmunni

ICES leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 1,14 milljón tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2018 var 1,39 milljón tonn en gert er ráð fyrir að aflinn á árinu verði um 1,7 milljón tonn.
Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?