Hljóðmerki fest á humar. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir
Dagana 26. – 27. ágúst var leturhumar merktur með hljóðmerkjum um borð í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni á veiðislóð í Jökuldýpi.
Tilraunin er liður í því að varpa ljósi á atferli tegundarinnar, en humar dvelur langdvölum en oft óreglubundið í holum eða göngum sem hann grefur ofan í botnleirinn. Þannig ræður atferlið öllu varðandi veiðanleika humarsins, en aflabrögðin sveiflast mjög eftir tíma sólarhringsins, birtu og dýpi en að jafnaði er veiðin best þegar þörungablóminn stendur hvað hæst á vorin.
Settir voru niður 9 strengir með hlustunar-hljóðduflum með 100 m bili á tveimur svæðum, á 115 m og 195 m dýpi. Merktir voru 16 humrar á hvoru svæði, þar af þrjú kvendýr. Merkin gefa frá sér hljóðmerki á 30-50 sekúndna fresti í um 70 daga. Merkin voru fest við bakskjöld dýrsins. Gæta þurfti sérstaklega að því að ekkert ljós gæti skaðað sjón þeirra og var því unnið í rauðu vinnuumhverfi og humarinn veiddur í vörpu að næturlagi. Humrunum var svo komið fyrir á hafsbotninum í búri festu við myndavélagrind sem á var myndavél er tók upp sleppinguna. Á hvoru svæði var einnig sett niður straumsjá sem gefur upplýsingar um straum og straumstefnu.
Sambærileg rannsókn var framkvæmd í fyrsta sinn við strendur Barcelona síðastliðinn vetur. Merkingin við Íslandsstrendur nú í ágúst var unnin í samvinnu við Hafrannsóknastofnun Spánar.
Stefnt er að því að taka hlustunarduflin upp 7. nóvember í lok rannsóknaleiðangurs á ástandi sjávar. Humarnerkingin er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki í kjölfar heimsfaraldurs og var styrkt af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Vonast er til að rannsóknin varpi ljósi á þann tíma sem hvert dýr dvelur í holu sinni og gefi upplýsingar um heimasvæði hvers dýrs.
Á Facebook síðu Hafrannsóknastofnunar má sjá myndband úr leiðangrinum.