Fjörusteininn var veittur Hafrannsóknastofnun

Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna

Hafrannsóknastofnun hlaut Fjörusteininn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna á aðalfundi Faxaflóahafna í síðustu viku. Í fréttatilkynningu Faxaflóahafna segir m.a.

„Skip stofnunarinnar hafa sett svip sinn á höfnina undanfarna áratugi, umgengi stofnunarinnar við hafnarsvæðið hefur verið til fyrirmyndar ásamt því að skip hennar hafa verið landtengd með rafmagni og hitaveitu svo árum skiptir. Flokkun sorps frá skipunum hefur einnig verið aukin til muna við innleiðingu Grænna skrefa sem snúast um að efla vistvænan rekstur stofnunarinnar.“

Það er mikill heiður fyrir Hafrannsóknastofnun að hljóta Fjörusteininn. Eitt stærsta hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna auk þess að sjá um umfangsmiklar umhverfismælingar og vöktun á lífríki. Stofnunin á því að vera í fararbroddi hvað varðar umgengni í höfnum landsins sem og á hafi úti og Fjörusteininn mun verða hvatning til að gera enn betur á því sviði.

Sjá einnig á heimasíðu Faxaflóahafna

mynd af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar að taka við umhverfisverðlaununum

Sólmundur Már Jónsson sviðsstjóri t.v og Ásmundur Bergmann Sveinsson t.h. taka á móti verðlaununum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?