Á málstofu Hafrannsóknastofnunar þann 3. nóvember flytur Eydís Salome Eiríksdóttir sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun erindi sem nefnist: Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á árframburð svifaurs og leystra efna.
Málstofa hefst kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4.
Málstofan er opin öllum, verið velkomin.
Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á árframburð svifaurs og leystra efna.
Eydís Salome Eiríksdóttir1,4, Eric Oelkers2, Jórunn Harðardóttir3 og Sigurður Reynir Gíslason4
1Hafrannsóknastofnun – Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Skúlagötu 4, 101 Rvk.
2GET, CNRS/URM 5563-Université Paul Sabatier, 14 rue Edouard Belin, 31400, Toulouse, France
3Veðurstofa Íslands, Bústaðavegi 7-9, 108 Reykjavík
4Jarðvísindastofnun Háskólans, Sturlugötu 7, 101 Reykjavík
Ágrip
Á undanförnum áratugum hefur aukin þörf mannkyns fyrir vatn, orku og flutninga haft í för með sér vaxandi áhrif á umhverfi straumvatna. Eitt þeirra er Jökulsá á Dal, sem stífluð var við Kárahnjúka á árunum 2004-2007. Við þá framkvæmd myndaðist Hálslón, sem geymir vatn til raforkuframleiðslu í Fljótsdalsstöð. Náttúrulegt ástand vatnasviðanna var rannsakað í fimm ár áður en framkvæmdir við Kárahnjúka hófust, en sýnum af vatni og svifaur var safnað úr vatnsföllum á áhrifasvæði þeirra. Eftir að virkjunin tók til starfa var sýnum safnað á áhrifasvæði hennar til að kanna áhrif stíflumannvirkja og reksturs Fljótsdalsstöðvar á árframburð svifaurs og leystra efna.
Fyrir virkjun var Jökulsá á Dal eitt aurugasta vatnsfall landsins (5,8 Mt/ár). Eftir virkjun hefur grófari hluti aursins fallið út í Hálslóni (5 Mt/ár), en fínni hluti hans (<60 µm) berst með vatninu í gegnum aðrennslisgöng virkjunarinnar, þaðan sem það rennur í Lagarfljót. Eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar hefur styrkur svifaurs verið afar lítill í Jökulsá á Dal, en í Lagarfljóti hefur hann aukist þrátt fyrir að langmestur hluti aursins sitji eftir í Hálslóni. Styrkur leystra efna í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti hefur breyst minna en styrkur svifaurs, en þó má sjá aukningu á heildarstyrk og heildarframburði leystra efna í vatnsföllunum. Aukninguna má rekja til nokkurra þátta t.d. breytinga á mettunarstigi ýmissa veðrunarsteinda með breyttum rennslisháttum, minnkunar á upptöku næringarefna í Lagarfljóti sökum minna gagnsæis (rýnis) í vatninu, og minnkunar á ásogi/frásogi málma á/af yfirborði korna eftir að jökulrænn svifaur hvarf úr framburði Jökulsár á Dal.