Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2016

Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2016

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október.  Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2016 sýna að alls veiddust um 53.600 laxar (1. mynd). Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 27% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2015 sem er 42.137 laxar. Veiðin 2016 var um 18.100 löxum minni en hún var 2015, þegar 71.708 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði  (veitt og sleppt).  Laxveiðin sumarið 2016 fór almennt vel af stað var góð veiði af stórlaxi (laxi tvö ár í sjó).  Smálaxagöngur sumarsins voru hinsvegar með minna móti og því dró víða úr veiði þegar líða tók á sumarið.
 
Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Til að fá samanburð við fyrri ár var metið hver laxveiðin hefði orðið ef engu hefði verið sleppt aftur og veiði úr sleppingum gönguseiða var einnig dregin frá. Sú niðurstaða leiðir í ljós að stangveiði á laxi 2016 hefði verið um 40.000 laxar, sem um 8 % yfir meðalveiðinni áranna 1974-2015. (2. mynd). Samdráttur var í laxveiði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi þar sem hún var svipuð og 2015 (3 mynd). Skýrist það að svipaðri veiði í hafbeitarám og vegna aukinnar laxveiði á vatnasvæði Þjórsár.
 
Við samanburð á gögnum um veiði og talningu úr fiskteljurum, hefur komið í ljós að almennt endurspeglar veiðin laxgengdina en þó þannig að hlutfallslega veiðist meira þegar gangan er lítil. Breytileiki á milli ára í laxveiði hefur verið meiri nú síðustu árin en áður eru dæmi um. Ástæður þess má rekja til breytinga á afföllum laxa í sjó. Fæðuskilyrði ráða þar miklu þar sem vöxtur, einkum á fyrstu mánuðunum í sjó, er minni í árum þegar laxgengd er lítil en meiri þegar laxgengd er meiri. Í kjölfar ágætrar veiði á löxum með eins árs sjávardvöl (smálaxi) sumarið 2015 komu stórar göngur af  laxi með tveggja ára sjávardvöl (stórlaxar) sumarið 2016 enda var um sama gönguseiðaárgang að ræða. Vorið 2015 var með kaldara móti, en lágt hitastig getur tafið útgöngu seiða og þar með stytt vaxtartímabilið í sjó sem kom fram í fækkun laxa úr þeim gönguseiðaárgangi sumarið 2016. Vatnshiti í ám hér á landi hefur almennt farið lækkandi frá 2003 til 2015. Í kjölfar þess hefur vaxtarhraði seiða minnkað og seiðaframleiðsla ánna dregist saman. Sumarið 2016 var aftur á móti með betra móti og útganga seiða gerðist á stuttum tíma sem oft hefur vitað á minni afföll og aukna laxgengd árið á eftir. Það hversu fáir smálaxar gengu í ár nú í sumar benda til að stórlaxagengd sumarið 2017 verði ekki mjög sterk.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?