Ástand rækjustofna innan fjarða

Ástand rækjustofna innan fjarða

Með hliðsjón af niðurstöðum könnunar á ástandi innfjarðarrækjustofna sem fram fór dagana 6.-25. október leggur Hafrannsóknastofnun til að leyfðar verði veiðar á 139 tonnum af rækju í Arnarfirði og 456 tonnum í Ísafjarðardjúpi á vertíðinni 2018/2019. Mikið var af þorskseiðum í Ísafjarðardjúpi. Því leggur Hafrannsóknastofnun til að veiðieftirlitsmaður frá Fiskistofu fylgist náið með upphafi rækjuveiða í Ísafjarðardjúpi og að viðkomandi veiðisvæði verði lokað ef meðafli seiða í rækjuafla fari yfir viðmiðunarmörk.

Lítið fannst af rækju í Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda og Öxarfirði og leggur stofnunin því ekki til aflamark rækju á þessum svæðum fyrir fiskveiðiárið 2018/2019.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var nálægt sögulegu lágmarki og rétt yfir skilgreindum varúðarmörkum. Rækja fannst eingöngu í Borgarfirði og var hún smærri en undanfarin ár. 

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi var undir meðallagi en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Útbreiðsla rækjunnar var að miklu leyti takmörkuð við svæðið innst í Ísafjarðardjúpi en einnig fannst hún í Útdjúpinu. Mikið var af þorskseiðum í Ísafjarðardjúpi og því telur stofnunin mikilvægt að veiðieftirlitsmenn Fiskistofu fari með í fyrstu róðra í Djúpinu og mæli magn seiða í rækjuafla.

Arnarfjörður

Ísafjörður

Húnaflói

Skagafjörður

Skjálfandi

Öxarfjörður

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?