Steingrímur Jónsson flytur erindi á málstofu

Steingrímur Jónsson, prófessor við auðlindadeild Háskólans á Akureyri og haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, flytur erindi á málstofu Steingrímur JónssonHafrannsóknastofnunar fimmtudaginn 19. október. Erindið nefnist Vatnsskipti, straumar, súrefni og veðurfar í Kolgrafarfirði í ljósi síldardauða veturinn 2012-2013.

Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal Sjávarútvegshússins, Skúlagötu 4, 1. hæð og hefst kl. 12:30. Henni verður streymt á YouTube-rás Hafrannsóknastofnunar.

Ágrip

Veturinn 2012-2013 varð mikill síldardauði í Kolgrafafirði, þegar u.þ.b. 53 þúsund tonn af síld drápust vegna súrefnisskorts í tveimur tilvikum. Byggð hafði verið brú ásamt vegtengingu yfir mynni Kolgrafafjarðar árið 2004 og var fljótlega bent á þá framkvæmd sem hugsanlegan áhrifavald í tengslum við síldardauðann með því að takmarka vatnsskipti við sjóinn úti fyrir.

Til að kanna það var ráðist í umfangsmiklar mælingar á straumum, sjávarhæð og ástandi sjávar í firðinum auk ýmissa veðurþátta í samvinnu við Vegagerðina. Nánast engar haffræðilegar mælingar voru gerðar fyrir byggingu brúarinnar og engar beinar mælingar á vatnsskiptum í Kolgrafafirði voru framkvæmdar. Einfalt tvívítt líkan var notað til að meta vatnsskiptin og brúin hönnuð þannig að vatnsskiptin væru svipuð fyrir og eftir skv. líkaninu.

Fjallað verður um niðurstöður verkefnisins og hvaða lærdóm má draga af því þegar ákvarðanir eru teknar um þverun annarra fjarða.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?