Jónas Jónasson flytur erindi á málstofu

Jónas Jónasson flytur erindi á málstofu

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar þann 1. desember flytur Jónas Jónasson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun erindi sem nefnist: Stofnstærð humars – holur taldar með neðansjávarmyndavélum. Málstofa hefst kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4. Erindinu verður streymt á netinu í gegnum YouTubesíðu stofnunarinnar  https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA
Verið velkomin
 

Ágrip

Þekkt er að sveiflur í veiðanleika leturhumars (Nephrops norvegicus) geta verið miklar. Atriði eins og þörungablómi, fiskgengd og tími dags og árs geta skipt þar miklu máli. Humarinn grefur sér holur/göng og dvelst stóran hluta ævinnar í þeim. Því hafa hefðbundnir leiðangrar með humarvörpu reynst frekar illa til að meta þéttleika humars. Stofnstærðin hefur því verið áætluð út frá stærðardreifingu og þar af áætlaðri aldurssamsetningu.
 
Á undanförnum 20 árum hefur það færst í vöxt að telja humarholur með neðansjávarmyndavélum til að fá mat á þéttleika. Á árinu var farið í leiðangra á Bjarna Sæmundssyni í fyrsta sinn til talningar á holum á humarslóð við Ísland. Fylgt var samræmdum tillögum Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem myndavélasleði var dreginn á tæplega 1 sjm./klst í 10 mínútur á alls 86 stöðvum. Fyrstu niðurstöður talninga sýna færri en 10 holur á hverja dregna mínútu sem bendir  til þess að þéttleiki á íslenskri humarslóð sé lægri samanborið við suðlægari mið í Evrópu. Holukerfin gátu hinsvegar verið nokkuð stór enda hlutfall stórhumars hátt.
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?