Höskuldur Björnsson flytur erindi á málstofu

Höskuldur Björnsson flytur erindi á málstofu

Fimmtudaginn 2. nóvember kl. 12.30, mun Höskuldur Björnsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, flytja fyrirlestur í fyrirlestrasal Hafrannsóknastofnunar á 1. hæð, Skúlagötu 4. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástand stofna þorsks og ýsu á færeyska landgrunninu.

Málstofunni verður streymt á YouTube-rás Hafrannsóknastofnunar.

Öll velkomin.

Ágrip


Ástand stofna þorsks og ýsu á færeyska landgrunninu hefur verið lélegt undanfarin ár og afli í sögulegu lágmarki.  Áhrif á færeyskan sjávarútveg í heild hafa hins vegar ekki verið mikil vegna mikillar veiði uppsjávarfiska, þorsks í Barentshafinu og ufsa við Færeyjar. Ástandið virðist þó vera að skána.

Í febrúar á þessu ári var haldinn vinnufundur þar sem átti að fjalla um stofnmatsaðferðir fyrir þorsk, ýsu og ufsa á færeyska landgrunninu og mögulegar aflareglur. Voru 2 starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Höskuldur Björnsson og Sigurður Þ Jónsson meðal þáttakenda á þessum fundi. Liðurinn „prófun á aflareglum“ kom í framhaldi af skýrslu sem nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra Færeyja skilaði í október 2016 þar sem lagt var til að hverfa frá núverandi daga kerfi og taka upp kvótakerfi. Þegar á reyndi voru Færeyingar þó ekki tilbúnir í þetta skref og aflaregluhluta fundarins var sleppt.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástand og horfur í færeysku stofnunum og einnig rætt um núverandi dagakerfi og tillögur nefndar sjávarútvegsráðherra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?