Björn Björnsson flytur erindi á málstofu

Björn Björnsson flytur erindi á málstofu

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar fimmtudaginn 28. febrúar mun Björn Björnsson, fiskifræðingur á fiskeldis og fiskræktarsviði stofnunarinnar, kynna niðurstöður rannsókna á atferli þorska tengdu hitastigi og fæðuframboði en þær voru birtar nýlega í vísindagrein í Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Sciences.

Vísindagreinin ber titilinn: Thermoregulatory behaviour in cod: Is the thermal preference in free-ranging adult Atlantic cod affected by food abundance?

Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og hefst kl. 12:30 og er öllum opin. Málstofunni verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar.

Líkamshiti fiska ræðst af umhverfishita og starfsemi líkamans svo sem súrefnisnotkun, matarlyst, meltingarhraði o. fl. breytist með hita. Í sjónum við Ísland er á sumrin hlýtt lag sem flýtur ofan á köldum sjó, en á haustin á sér stað lóðrétt blöndun þannig að hitinn verður svipaður við yfirborð og botn. Þorskur getur því haft áhrif á líkamshita sinn á sumrin með því að velja það dýpi sem best hentar, en á veturna er það ekki hægt. Á vissum stöðum við landið eru reyndar lárétt hitaskil (thermal fronts) þar sem þorskar geta valið hita með því að færa sig til.

Í Arnarfirði var gerð tilraun með svokallað hjarðeldi þar sem villtir þorskar voru fóðraðir reglubundið á ákveðnum fóðrunarstöðvum og gátu þeir étið eins mikið og þeir vildu. Hluti þessara fiska var merktur með rafeindamerkjum sem skráðu dýpi og hita. Annar hópur villtra þorska í firðinum sem varð að finna sér fæðu og át miklu minna var einnig merktur með rafeindamerkjum. Samanburður á þessum tveimur hópum var gerður til að kanna hvort fæðuframboð hefði áhrif á það dýpi og hitastig sem þorskur velur sér.

 

Hafrannsóknastofnun hvetur gesti á viðburðum á vegum stofnunarinnar til að nýta sér umhverfisvænar samgöngur og minnir á að fjölmargar strætisvagnaleiðir stoppa í nágrenni stofnunarinnar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?