Stinglax

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Aphanopus carbo
Danska: sort sabelfisk, Dolktandfisk
Færeyska: stinglaksur
Norska: dolkfisk
Sænska: dolkfisk
Enska: black scabbard-fish
Þýska: Schwarzer Degenfisch
Franska: sabre noir
Spænska: sable negro
Portúgalska: peixe-espada-preto
Rússneska: Чёрная {У́гольная} сабля-рыба / Tjsórnaja {Úgol'naja} sáblja-rýba

Stinglax er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur með meðalstóran haus, þunnan og frammjóan og flatan að ofan. Neðri skoltur er framteygður og á honum er lítill hnúðnabbi. Kjaftur er stór og tennur á skoltum eru stórar og vígalegar, tvíeggjaðar og í einfaldri röð. Á milli þeirra eru örsmáar tennur og auk þess eru þrjár til fjórar höggtennur á miðskoltsbeini. Augu eru stór. Bolur er langur og jafnhár, stirtla er löng en mjókkar aftur. Bakuggi er mjög langur og tvískiptur og eru broddgeislar í fremri hluta hans. Raufaruggi er aðeins styttri en aftari hluti bakugga. Fremst í honum eru sundurlausir broddar og framan við þá er hvass og flatur stingur sem vísar skáhallt aftur. Sporður er lítill og djúpsýldur. Spyrðustæði er mjög grannt. Eyruggar eru í meðallagi stórir en kviðugga vantar hjá fullorðnum fiskum. Á ungum fiskum vottar fyrir smá kviðuggaörðum rétt framan við eyruggaraetur eða undir þeim framanverðum. Rák er greinileg en hreistur vantar. Stinglax verður rúmlega 120 cm. í maí 1992 veiddist 122 cm stinglax á grálúðuslóð vestan Víkuráls (64°26'N, 28°06'V) og annar jafnlangur í júní sama ár og á svipuðum slóðum.

Litur: Nýveiddir stinglaxar eru svartfjólubláir á lit með gylltum blæ en þeir dökkna með tímanum og verða svartir.

Geislar: B: XXXVII-XLII+52-57;- R: I- 11+43-48; hryggjarliðir: 97-100.

Heimkynni stinglax eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Asóreyjum, Madeira, Spáni og Portúgal um Biskajaflóa vestur og norður fyrir Bretlandseyjar til Færeyja og Íslandsmiða allt vestur í Grænlandshaf og suðaustan og suðvestan Grænlands. Hans hefur orðið vart við Nýfundnaland og undan Nýja-Skotlandi.

Hér veiðist stinglax frá djúpmiðum undan Suðausturlandi vestur með landi alveg norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og virðist vera einna mest um hann á Reykjaneshrygg.

Fyrst varð hans vart hér í september árið 1904 en þá fannst einn rekinn lifandi í Vestmannaeyjahöfn. Var talið að um nýja og áður óþekkta tegund væri að ræða og var henni gefið nafnið Aphanopus schmidti en síðar kom í ljós að svo var ekki.

Lífshættir: Stinglax er miðsævis- og botnfiskur og eru það einkum ungir fiskar sem halda sig miðsævis. Hann hefur veiðst á 70-1600 m dýpi en er sjaldan grynnra en 180-200 m. Hér virðist vera mest um hann á 800-1000 m dýpi.

Fæða er ýmsir fiskar, t.d. kolmunni, laxsíld, langhali, móra og berhaus en einnig smokkfiskur og krabbadýr.

Vestan Bretlandseyja hrygnir stinglax á 700-900 m dýpi í nóvember til apríl og ef hann hrygnir hér þá gerir hann það sennilega síðvetrar og fram á sumar. Egg og seiði eru sviflæg og við Madeira hafa fundist 10 cm seiði. Kynþroska er náð við 80-85 cm lengd.

Nytsemi: Stinglax er verðmætur nytjafiskur, m.a. við Madeira og er hann veiddur þar á línu og einnig við Portúgal. Hann veiðist auk þess sem aukaafli vestan Bretlandseyja og á Mið-Atlantshafshryggnum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?