Síld

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Clupea harengus
Danska: sild
Færeyska: sild
Norska: sild
Sænska: sill
Enska: herring, atlantic herring
Þýska: Hering
Franska: hareng
Spænska: arenque de Atlántico
Portúgalska: arenque-do-Atlântico
Rússneska: Сельдь / Sel'd', Атлантическая сельдь / Atlantítsjeskij sel'd'

Síldin er fremur langvaxin og þunnvaxin. Haus er í meðallagi stór, snjáldrið er stutt og kjaftur lítill en getur þanist út. Neðri skoltur teygist fram fyrir þann efri og er síldin því yfirmynnt. Tennur eru mjög litlar. Síldin er frekar bollöng en með stutta stirtlu. Bakuggi er einn og á miðju baki. Raufaruggi er aftarlega. Eyruggar eru frekar litlir og kviðuggar eru bolstæðir andspænis bakugga. Sporðblaðka er stór og djúpsýld. Hreistur er stórt og laust en rákin varla sýnileg. Stærsta síld sem vitað er til veiðst hafi hér við land fékkst í júlí árið 1955 út af Skjálfanda. Hún var 46,5 cm löng og 750 g á þyngd. Annars verður síldin sjaldan lengri en 40 cm og oft er hún 30-40 cm.

Litur: Síldin er blágræn á baki með purpurarauðri og fjólublárri slikju. Á hliðum og kviði er hún silfurgljáandi með fjólublárri slikju. Trýnið er dökkblátt og uggar gráleitir.

Geislar: B; 17-21; R: 14-20; hryggjarliðir: (54)55-59(60).

Heimkynni síldarinnar eru í Barentshafi og Norður-Atlantshafi frá vesturströnd Svalbarða til Novaja Semilja og inn í Karahaf og Hvítahaf og meðfram ströndum Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar inn í Eystrasalt. Hún er í Norðursjó, umhverfis Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Þá er hún í hafinu á milli Íslands og Noregs, við Færeyjar og Ísland. Hún er við Grænland suðvestanvert og austurströnd Norður-Ameríku, frá Norður-Labrador suður til Hattershöfða í Norður-Karólínu. Í norðanverðu Kyrrahafi er síld beggja vegna og greindi fræðinga lengi á um hvort þetta væri um sömu tegund að ræða og í norðanverðu Atlantshafi eða ekki. Nú er hallast að því að hér sé um tvær tegundir að ræða og er Kyrrahafssíldin kölluð Clupea pallasi. Hún er með færri hryggjarliði að meðaltali en síldin í Atlantshafi norðanverðu. Þannig eru 51-53 hryggjarliðir í síldinni við Kyrrahafsströnd Kanada.

Hér við land er síld allt í kringum landið. Greint er á milli ýmissa síldarstofna sem eru frábrugðnir að stærð, vexti, hrygningartíma og göngum. Má greina á milli stofna með aðstoð kvarna, hreisturs og meðalfjölda hryggjarliða.

Af síldarstofnum í norðaustanverðu Atlantshafi má nefna Hvítahafssíldina, Múrmansksíldina, norsku vorgotssíldina, þrjá stofna haustgotssíldar í Norðursjó og við vesturströnd Skotlands og íslensku síldarstofnana tvo, vorgots- og sumargotssíld.

Við Ísland hafa fundist þrír síldarstofnar, íslensk vor- og sumargotssíld og norski vorgots-síldarstofninn sem kom hingað í ætisleit á sumrin. Vorgotssíldin og norski stofninn teljast vera hafsíldir en sumargotssíldin grunn eða strandsíld. Greina má íslensku vorgots- og sumarsíldina í sundur m.a.. á því að sumargotssíldin hefur færri hryggjarliði að meðaltali eða 57.05 á móti 57,36 hjá vorgotssíldinni. Auðveldast er að þekkja þessa tvo íslensku stofna í sundur á mismunandi þroskaferli hrogna og svilja vegna mismunandi hrygningartíma. Þessir þrír síldarstofnar blönduðust oft áður á ætisgöngutímanum en greindust síðan í sundur þegar dró að hrygningu.

Lífshættir: Síldin er fyrst og fremst uppsjávar- og miðsævisfiskur enda þótt hún hrygni við botn. Hún lifir á yfirborði og niður á 200-250 m dýpi og er ekki sérlega viðkvæm fyrir seltustigi sjávar því hún finnst í fullsöltum sjó og í ísöltu vatni. Hún á það til að álpast upp í árósa ef svo ber undir. Strax og kviðpokanum sleppir byrja síldarseiðin að éta smáþörunga, ungar krabbaflær og fleira. Aðalfæða fullorðinnar síldar eru þó ýmiss konar smákrabbadýr og er þar fremst í flokki rauðáta (Calanus finmarchicus) og skyldar tegundir. Þá étur hún mikið af ljósátu, ýmisar marflóategundir, vængjasnigla og pílorma og fyrir kemur að hún étur fullvaxinn fisk, t.d. loðnu og sandsíli.

Síldin í norðanverðu Atlantshafi hrygnir á grófum sandbotni eða hörðum botni og oft innan um steina eða möl, allt frá örfárra metra dýpi og niður á 100-200 m en oftast á 50-150 m. Kyrrahafssíldin hrygnir alveg upp í flæðarmáli og festir egg sín þar í þarablöðkur sem síldin í Eystrasalti gerir reyndar einnig. Eggin eru botnlæg, 1,2,-1,5 mm í þvermál og límast við botnsandinn eða mölina. Fjöldi þeirra er um 20-30 þúsund og fer eftir síldarstofnum og stærð hrygnu.

Vorgotssíldin hrygndi aðallega í mars og aprílbyrjun á 75-150 m dýpi á Selvogsbanka. Þessi síldarstofn er nánast útdauður af völdum ofveiði, óhagstæðra umhverfisskilyrða og að einhverju leyti Surtseyjargossins sem eyðilagði mikilvægar hrygningarslóðir hennar.

Sumargotssíldin hrygnir aðallega í júlí á 50-150 m dýpi, en sums staðar á innan við 50 m dýpi, við suðvestur-, suður- og suðausturströndina. Hrygningarstöðvar eru m.a. við Snæfellsnes, í Faxaflóa, á Selvogsbanka, í Mýrarbugt og stundum við Norðurland.

Seiðin klekjast á 15-19 dögum við 7-8°C og klakið er því ekki fyrr en komið er fram í ágúst. Svifseiðin berast með straumi vestur og norður fyrir Reykjanes og allt til Vestfjarða og Norður- og Austurlands. Þau ná engum verulegum vexti fyrir veturinn og eiginlegur vaxtatími hefst ekki fyrr en næsta vor þegar þau eru 8-9 mánaða gömul. Sumargotssíldin elst síðan upp í flóum og fjörðum norðvestan-, norðan- og austanlands til tveggja ára aldurs en á þriðjaári gengur hún suður fyrir land á slóðir foreldra sinna.

Að lokinni hrygningu dreifist fullorðna síldin í ætisleit ýmist vestur eða austur með landi og stundum jafnvel norður fyrir land. Með haustinu heldur sumargotssíldin síðan aftur á veturslóðir sem voru mjög breytilegar á síðustu áratugum 20. aldar.

Norski síldarstofninn sem kom hingað í ætilsleit áður fyrr hrygnir aðallega við vesturströnd Noregs í febrúar til apríl. Að lokinni hrygningu og klaki berast svifseiði inn í firði og flóa eða norður með yfirborðsstraumum. Mörg seiðin setjast að í standsjónum milli Björgvinjar og norður á Finnmörk en hluti þeirra berst frá landi með straumum. Ókynþroska síldin eyðir fyrstu árunum í fjörðum eða strandsjónum en kynþroska síldin leitaði áður fyrr meir út í hafið á milli Noregs og Íslands í fæðuleit og gekk lengra og lengra norðvestur á bóginn eftir því sem voraði í sjónum. Til Íslands var hún oftast komin í júní eða byrjun júlí. Seint á sjöunda áratugnum hrundi stofninn, m.a. vegna gengdarlausrar ofveiði á smásíld og versnandi skilyrða í hafinu. Eftir 20 ára lægð hjarnaði stofninn aðeins við og hafði aukist úr 70 þúsund tonnum árið 1970 í eina og hálfa miljón tonna árið 1990 og við lok 20. aldar hafði hann braggast enn frekar og var talinn vera 6-8 milljónir tonna. Óvíst er hvort eða hvenær hann kemur aftur á Íslandsmið og þá hvort það verður að einhverju gagni en hann er farinn að nálgast Ísland.

Eins og getið var klekjast seiðin út á tveimur til þremur vikum og eru þau 5-9 mm við klak. Þau leita upp í yfirborð sjávar og berast með straumi langt frá hrygningarstöðvum á meðan þau eru að breytast í stærri seiði. Þegar seiðin eru 2 cm löng hafa þau fengið öll helstu einkenni foreldra sinna: fjöldi hryggjarliða er ákveðinn, sporður myndaður, bakuggi orðinn greinilegur og raufaruggi er að myndast. Þegar seiðin eru orðin 4 cm löng fer hreistrið að myndast.

Vöxtur hinna tveggja íslensku síldarstofna er mjög svipaður. Kynþroska nær sumargotssíldin um fjögurra ára aldur. Hámarksaldur er 20-25 ár.

Óvinir síldarinnar eru margir og maðurinn þar fremstur í flokki. Ýmsir fiskar sækja í eggin, einkum ýsan, sem treður sig oft út af þeim. Svifseiðin og seiði verða marglyttum, fiskum og fuglum að bráð. Ungsíldin og sú fullorðna eru eltar af ýmsum hraðsyndum fiskum eins og hámeri, háfi, túnfiski og makríl. Ýmsir fuglar svo sem svartfugl, máfar, súla og fleiri, taka vænan toll af síldinni. Einnig eru selir og hvalir gráðugir í hana.

Nytjar: Síldin er mikið veidd og hefur um langan aldur verið ein mest veidda fisktegundin í heiminum. Síldveiðar voru stundaðar í Norðurálfu löngu áður en sögur hófust. Flestir síldarstofnar í Norðaustur- Atlantshafi hrundu á sjöunda og áttunda áratugnum en haf náð sér aftur nema vorgotssíldarstofninn við Ísland.

Árið 1966 veiddust um 3,6 milljónir tonna af síld í Norðaustur- Atlantshafi og er það mesti afli sem náðst hefur. Það ár varð heildasíldarafi Íslendinga tæplega 771 þúsund tonn. Mest veiddist á Íslandsmiðum árið 1962 en þá náðust 650 þúsund tonn og veiddu Íslendingar 478 þúsund tonn af þeim afla. Íslendingar veiddu mest á Íslandsmiðum rúmleg 590 þúsund tonn árið 1965 og auk þess rúmlega 172 þúsund tonn á öðrum hafsvæðum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?