Sandrækja

Sandrækja nýkomin úr hamskiptum. Sandrækja og hamur. Sandrækja
Sandrækja nýkomin úr hamskiptum. Sandrækja og hamur. Sandrækja
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Crangon crangon, Crangon vulgaris
Danska: hestereje, sandhest, sandreje
Norska: hestereke
Enska: brown shrimp, common shrimp
Þýska: Granat, Nordseegarnele, Nordseekrabbe, Porre, Sandgarnele, Speisekrabbe
Franska: crevette, crevette gris
Spænska: quisquilla
Portúgalska: camarão-negro
Rússneska: Песчаная креветка / Pestsjánaja krevétka, Гарнель / Garnel'

Einkenni: Sandrækja er af ætt rækja Caridea. Sandrækja greinist frá öðrum líkum tegundum með því að strjúka yfir skjöld og síðasta halaliðinn og ef þetta tvennt er slétt þá er um sandrækju að ræða. Heildarlengd sandrækju verður allt að 9 cm (Dore og Frimodt, 1987). Hún er brúnleit á litinn, en liturinn getur breyst eftir umhverfinu. Hún hefur stutt spjót. 

Útbreiðsla: Sandrækja lifir á grunnsævi, frá fjöruborði niður á um 150 m dýpi, á mjúkum botni í tempruðum sjó í Norðaustur‐Atlantshafi (Henderson og Holmes, 1987; Hostens, 2000). Sandrækja er dreifð víða um strandsvæði Austur‐Atlantshafsins og fannst tiltölulega nýlega við Ísland eða árið 2003,en hún er talin hafa borist til landsins með kjölvatni (Björn Gunnarsson o.fl., 2007). Tegundin virðist vera að koma sér vel fyrir hér við land og benda rannsóknir til þess að fjöldi hennar sé að aukast og sömuleiðis útbreiðsla (Ingibjörg G. Jónsdóttir o.fl., 2016; Koberstein, 2013). Sandrækja er mikilvæg fæða bæði fyrir fiska, fugla og ýmsa hryggleysingja. Við Ísland fannst sandrækjan fyrst við Vesturland (Álftanes) árið 2003, en hefur síðan verið að dreifa sér norður með Vesturlandi (25. mynd). Hér við land hefur sandrækjan verið veidd í svo kallað bjálkatroll og fundist á 1 – 20 m dýpi.

Fundarstaðir sandrækju við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Lífshættir: Sandrækja lifir á sendnum botni, sækir sér fæðu á nóttunni en liggur grafin í botninn á daginn til þess að forðast afrán fiska og fugla.
Nytjar: Sandrækja er mikilvæg nytjategund og er veidd til manneldis víða undan ströndum Norður‐
Evrópu (Dore og Frimodt, 1987). Þó sandrækjustofninn við Ísland fari stækkandi er hann þó enn of lítill
til að nýta.

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?