Sabinsrækja

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sabinea septemcarinatus

Einkenni: Sabinsrækja er af ætt rækja Caridea. Sabinsrækja er brúnleit, spjótið er stutt, rúnnað og nær ekki fram fyrir augu og á baki frambols eru 7 gaddar sem liggja frekar lágt. Yfirborð sabinsrækju er dekkra og gaddar smærri en á litla þvara. Skjaldarlengd hennar verður mest um 2 cm (Nozeres og Berube, 2003).

Útbreiðsla: Sabinsrækja hefur norðlæga útbreiðslu; á pólsvæði Kanada og Alaska, í Hudsonflóa, við Grænland og Ísland, í Hvítahafi og Barentshafi, við Bresku eyjarnar og Færeyjar. Sabinsrækja lifir við hitastig frá ‐1,4 til 9,8°C, en er algengust þar sem hitastig er í kringum 0°C. Hún hefur fundist frá yfirborði niður á um 800 m dýpi. Sabinsrækja hefur fundist allt í kringum Ísland. Í fæðusýnum er hana helst að finna við Norðvesturland. Hún hefur fundist niður að 759 m dýpi en grynnst á 18 m dýpi og við hitastig á bilinu ‐0,6 – 9,8°C.

Fundarstaðir sabinsrækju við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Fundarstaðir sabinsrækju við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Lífshættir: Helsta fæða sabinsrækju er botngróður,skelkrabbar og marflær. Helstu afræningjar eru þorskur, selir og mjaldur (Squires, 1990). Við Ísland er sabinsrækju helst að finna í þorskmögum en einnig töluvert í ýsu. Líklegt er að eitthvað sé um rangargreiningar í magasýnum þar sem hrossarækju, litla þvara og sabinsrækju hefur verið ruglað saman.

Nytjar: Sabinsrækja hefur ekki verið nytjuð.

 

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?