Lýr

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pollachius pollachius
Danska: blåsej, lubbe, lyssej
Færeyska: lyrur
Norska: lyr, lyrsei, lyrtorsk
Enska: lythe
Þýska: Pollack, Steinköhler
Franska: lieu jaune
Spænska: abadejo
Portúgalska: juliana, verdelho
Rússneska: Serebrístaja sájda

Lýr líkist ufsa við fyrstu sýn. Hann er svipaður í vexti, þ.e. straumlínulaga og rennilegur, hæstur á móts við fremsta bakugga. Haus er stór og frammjór. Neðri skoltur teygist greinilega fram fyrir þann efri. Tennur eru smáar og í breiðum. Hökuþráð vantar. Augu eru stór. Bakuggar eru þrír og er sá í miðið lengstur en sá fremsti hæstur. Raufaruggar eru tveir og sá fremri mun lengri. Sporður er stór og þversneiddur fyrir endann. Eyruggar eru frekar litlir og kviðuggar, sem eru kverkstæðir, mjög litlir. Hreistur er stórt og rák greinileg. Hún er bein frá sporði en sveigist upp á við ofan við eyrugga. Lýr getur orðið 130 cm á lengd, sá lengsti hér var 100 cm og veiddist á Mýrarbug í mars 1990.

Litur er breytilegur, oft ólífugrænn eða dökkbrúnn á baki, silfurgrár á hliðum með gulum rákum sem mynda netmynstur meðfram rákinni. Uggar eru allir dökkir nema kviðuggar sem eru með rauðleitum blæ. Rákin er dökk eða dökkgræn.

Geislar: B1: 11-12; B2: 15-20; R1: 24-34; R2: 16-21; hryggjarliðir: 52-55.

Heimkynni lýrs eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá norðanverðri Afríku og meðfram ströndum Spánar og Portúgals inn í Biskajaaflóa, umhverfis Bretlandseyjar, í Norðursjó til Skagerak og Kattegat og meðfram Noregsströndum. Hann hefur fundist norður til Finnmerkur. Þá er hann við Færeyjar og Ísland. Náttúrurfræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson taldi að lýr, sem hann vildi nefna gullufsa, hefði fengist í Eyjafjallasjó, og er það ekki ólíklegt. Í apríl 1938 veiddist lýr í botnvörpu á Selvogsbanka og annar veiddist á línu í febrúar 1944 austur af Vestmannaeyjum. Síðan hafa margir veiðst á svæðinu frá Breiðdalsgrunni vestur til Snæfellsnes en flestir veiðast , undan Suðausturlandi þar sem hann fæst árleg. Í maí mánuði árið 1993 veiddist einn í net á Bakkafirði undan Norðausturlandi og í júní 2007 veiddist einn við Sléttu og annar í Öxarfirði og ári seinna veiddist einn á Skjálfanda. Þetta munu vera nyrstu fundarstaðir hér við land.

Lífhættir: Lýr er miðsjávar- og botnfiskur á grýttum botni . Hann finnst niður á um 200 m dýpi en er algengastur á 40 – 100 m dýpi. Ungir og ókynþroska fiskar halda sig grynnra og nær ströndum en fullorðnir fiskar. Á veturna heldur lýrinn út á dýpra vatn.

Fæða er einkum alls konar fiskar, t.d. sandsíli, síld og makríll, en einnig krabbadýr eins og humar og rækja.

Hrygningarstöðvar lýrs eru í Biskajaflóa, vestan Bretlandseyja, Í Norðursjó, Skagerak, við Noregsstrendur og Færeyjar. Hann hrygnir á vorin í sjó hlýrri en 8 °C og á um 100 m dýpi. Egg og lirfur eru sviflæg og eru eggin um 1,1 – 1,2 mm í þvermál. Um hrygningartímann hópast fullorðnu fiskarnir saman í torfur en fara annars meira einförum.

Lýr gæti hrygnt reglulega hér við land og egg hafa fundist við suðurströndina í júní. Í byrjun apríl 1998 veiddist 82 cm hrygna, 14 ára gömul, alveg komin að hrygningu á 110 m dýpi á Selvogsbanka (63°39´N, 21°33´V). Hann ætti þá að hrygna hér við suðurströndina þegar skilyrði eru góð, í apríl og einkum maí og júní.

Nytjar: Lýr veiðist sem aukaafli, einkum í net og á línu, við þorsk- og ufsaveiðar, m.a. í Norðursjó og víðar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?