Litli þvari

Mynd: Ingibjörg Jónsdóttir Litli þvari
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sabinea sarsii
Enska: Sars shrimp

Einkenni: Litli þvari er af ætt rækja Caridea. Litli þvari er fölleitur með hrjúft yfirborð þar sem á framboli eru sjö gaddaraðir, spjót er stutt og flatt fremst. Ólíkt sabinsrækju þá nær spjótið aðeins fram fyrir augun hjá litla þvara. Heildarlengd litla þvara verður sjaldan meiri en 7 cm (Nozeres og Berube, 2003; Squires, 1990).

Útbreiðsla: Litli þvari finnst eingöngu í Norður Atlantshafi á 48 – 710 m dýpi. Við Ísland hefur hann nær eingöngu fundist út af norðanverðu landinu, en hefur einnig verið greindur út af Breiðafirði og einu sinni út af Suðurlandi. Hans verður aðallega vart í fæðugögnum, en hefur einnig verið greindur úr trolli og skjóðu. Við landið hefur hann fundist frá 75 m dýpi og niður á 406 m dýpi við hitastig frá ‐0,1°C að 6,7°C.

Fundarstaðir litla þvara við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Fundarstaðir litla þvara við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Lífshættir: Lífshættir litla þvara eru að mestu óþekktir. Hann lifir á ýmsum krabbadýrum, svo sem marflóm og krabbaflóm, ásamt burstaormum (Squires, 1990). Samlífi litla þvara og snigils af ættkvíslinni Lora er með þeim hætti að snigillinn, sem er undir afturbolnum á rækjunni, kemur eggjum sínum þar fyrir. Þar vaxa þau á sama tíma og egg litla þvara allt þar til þau klekjast. Þetta veldur því að færri egg klekjast út hjá litli þvara (Fontaine, 1977). Þetta samlífi hefur einnig sést hjá sabinsrækju.

Nytjar: Litli þvari er ekki nytjaður.

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?