Litli mjóri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lycodes gracilis
Danska: almindelig ålebrosme
Norska: vanlig ålebrosme
Enska: Vahl´s eelpout
Þýska: Wolfsfisch
Franska: lycode de Vahl

Rák litla mjóra er kviðlæg. Hreistur á bol og stirtlu nær til róta kvið- og eyrugga. Kviður og hluti svæðis framan við bakugga er hreistrað. Bak- og raufaruggar eru meira eða minna hreistraðir. Haus, hnakki og ytra borð eyruggaróta eru hreisturslaus. Fjarlægð frá trjónu að rauf er 37,8-42,5% af lengd fisksins að sporði. Skúflangar eru tveir. Við Ísland hefur veiðst 40 cm langur litli mjóri.

Litur er breytilegur eftir aldri, brúnn eða gulgrár á fullorðnum fiskum. Oft er lítill dökkur blettur fremst á bakugga, stundum fleiri, allt að þrír eða fjórir. Ungir fiskar eru með 8-13 breiðar, dökkar þverrendur sem dofna með aldrinum. Lífhimna er svört.

Geislar: B: (91)99-101 (112); R: (80)86(98); E: 17-19(20); hryggjarliðir: 98-111 (hér: 111).

Heimkynni litla mjóra eru við Svalbarða og frá sunnanverðu Barentshafi suður í norðurhluta Kattegat. Hann er við Ísland og einnig Austur-Grænland. Í Davissundi við Vestur-Grænland, við Labrador, í Lárensflóa, við Nýfundnaland og suður til Nýja-Skotlands er tegundin Lycodes vabli.

 

Hér finnst litli mjóri allt í kringum land en einkum þó í kalda sjónum.

Lífshættir: Litli mjóri er botnfiskur á leirbotni sem veiðst hefur á 50-540 m dýpi. Fæða er burstaormar, smákrabbadýr, rækja, ljósáta, smáskeldýr, slöngustjörnur og fleira. Hér við land hafa fundist í ágúst á 100-200 m dýpi, bæði í Skjálfandaflóa og við Austfirði, 19-21 cm langar hrygnur með eggjum sem voru 4,5 mm í vermál og auk þess 30 cm hængur með stórum sviljum. Tvær hrygnur, 27 og 25 cm langar að sporði, sem veiddust seint í september í Grænlandssundi, voru með 154 og 107 appelsínugul egg, 5,2 og 6,0 mm í þvermál. Egg eru botnlæg.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?