Hvítaskata

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Rajella lintea
Danska: hvidrokke
Færeyska: hvítaskøta
Norska: Kvitskate
Sænska: vitrocka, blaggarnsrocka
Enska: sailray, sharp-nosed skate, white skate
Þýska: Weissrochen
Franska: raie blanche, raie voile
Spænska: raya vela
Portúgalska: raia-nevoeira
Rússneska: Párusnyj skat

Trjóna hvítuskötu er hvöss og löng og framteygðari á hængum en hrygnum. Skífa er ívið breiðari en hún er löng. Fremri jaðar eyrugga á hængnum er innhvelfdur rétt aftan við trjónu og einnig á móts við innstreymisop. Efri hluti skífu hjá hálfvöxnum og fullorðnum hvítuskötum er með einfaldri röð stórra gadda eftir miðju. Frá hnakka að fremri bakugga eru 42-51 gaddur eftir miðju baki. Hali er fremur stuttur og sporðblaðka örlítil. Á hvorri halahlið eru ein til þrjár óreglulegar raðir smærri gadda að framan en ein röð að aftan sem nær á móts við aftari bakugga. Tveir stórir gaddar eru á skífunni á hvoru herðablaði. Þyrnar eða gaddar eru á augabrúnum og herðum. Bakuggar eru ýmist samvaxnir við rætur eða aðskildir. Enginn gaddur er á milli þeirra. Hvítaskata getur orðið allt að 150 cm löng.

Litur: Hvítaskata er blágrá eða mógrá að ofan en hvít að neðan. Einn dökkur blettur er hvorum megin raufar og eru hvítuskötur oftast auðþekktar á honum.

Heimkynni hvítuskötu eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandsmiðum til Færeyja, Hjaltlandseyja, suðvesturhluta Noregs, allt inn í Skagerak og norðan og vestan Bretlandseyja. Í norðvestanverðu Atlantshafi finnst hún við Vestur-Grænland og hennar hefur orðið vart á Flæmska hattinum vestan Nýfundnalands.

Hér varð hennar fyrst vart sennilega i júní árið 191l en þá veiddist hrygna með tveimur fullþroskuðum eggjum á 130-140 m dýpi á Jökulbanka suðvestur af Snæfellsnesi. Síðan hefur hennar orðið vart allt frá miðunum undan suðaustanverðu landinu (Rósagarði) vestur og norður með landi til miðanna undan vestanverðu

Norðurlandi. Hún hefur m.a. veiðst á 825— 1005 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls og á 320—345 m dýpi í Reykjafjarðarál. Einnig rétt utan 200 sjómílna markanna á Reykjaneshrygg.

Lífshættir: Hvítaskata hefur veiðst á 130 til rúmlega 1000 m dýpi. Fæða hennar er einkum fiskar, smokkfiskar og ýmis botndýr. Um got er lítið vitað en í apríl 1997 fengust tvö pétursskip hvítuskötu, annað 9,5 cm á lengd og 5,3 cm á breidd en hitt 10,5 cm á lengd og 5,3 cm á breidd, á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Í byrjun febrúar árið 2002 veiddist pétursskip hvítuskötu með fóstri komnu að goti á 183 m dýpi við Berufjarðarálshornið (64°02'N, 13°12'V).

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?