Bláháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Prionace glauca
Færeyska: Bláhávur
Norska: Blåhai
Sænska: Blåhaj
Pólska: Zarlacz blekitny
Enska: Prionace glauca
Þýska: Blauhai
Franska: Requin bleu
Spænska: Tiburón azul
Portúgalska: Tintureira

Mynd vantar.

 

Bláháfur er langvaxinn og rennilegur háfiskur. Trjóna er mjög löng og ávöl fyrir endann. Hausinn er stór og sömuleiðis augu. Kjaftur er bogadreginn og vígalegur og skoltarnir sagtenntir. Uggar eru vel þroskaðir. Bakuggar eru tveir og er sá fremri stærri. Sá er um miðja vegu á milli eyr- og kviðugga. Aftari bakuggi og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum aftarlega á stirtlu. Eyruggar eru mjög langir og lengri en fjarlægð frá trjónu að fremsta tálknaopi. Á spyrðustæði er smá hliðarkjölur hvorum megin. Bláháfur verður 3-4 m á lengd.

Litur: Bláháfurinn er blár á baki og hliðum, kviður er hvítur.

Heimkynni bláháfs eru í öllum heimshöfum frá rúmlega 60°N til 50°S og hann þvælist jafnvel norður í Atlantshaf norð- austanvert og Kyrrahaf norð- austanvert. Í austanverðu Atlantshafi hefur bláháfur veiðst frá Norður-Noregi suður í Miðjarðarhaf og áfram til Suður-Afríku. Í vestanverðu Atlantshafi er hann frá Nýfundnalandi í norðri suður til Argentínu. Í Indlandshafi frá Afríku til lndónesíu og Ástralíu og í Kyrrahafi frá Alaskaflóa til Chile að austan og að vestan frá Japan suður til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Einnig er hann að finna í Mið-Atlantshafi og Mið- Kyrrahafi. Hér hefur hans ekki orðið vart mjög nálægt landi ennþá en allmargir bláháfar hafa veiðst síðan 1996 innan (og utan) fiskveiðilögsögunnar djúpt suður af landinu við túnfiskveiðar Japana þar. Þeir sem veiðst hafa næst landi voru um 50 sjómílur undan suðurströndinni. Í byrjun september árið 1997 veiddi íslenskt skip 220 cm bláháfshrygnu á línu á 1464 metra dýpi rúmlega 200 sjómílur suðvestur af Reykjanesi (61°20'N, 28°20'V).

Lífshættir: Bláháfur er úthafs- og uppsjávarfiskur sem flækist stundum upp að ströndum, einkum þar sem landgrunnið er mjótt eða við úthafseyjar og þá frekar að nóttu til en í björtu. Hann heldur sig einkum allt frá yfirborði og niður á 150 til rúmlega 200 m dýpi. Hann þolir allt frá 7 til 25°C heitan sjó. Bláháfar sjást oft nokkrir saman í smátorfum við yfirborð og gnæfa þá fremri bakuggi og sporður upp úr. Merkingar hafa sýnt að bláháfar þvælast á milli Evrópu og Ameríku og fylgja þeir meðal annars Golfstraumnum og greinum hans. Bláháfar merktir undan strönd Bandaríkjanna hafa endurveiðst undan Spáni, í Njörvasundi (Cíbraltarsundi) og víðar og bláháfur merktur við Kanaríeyjar endurveiddist við Kúbu. Athyglisvert er að hrygnur eru algengari en hængar á norðurslóðum.

Bláháfurinn á unga og getur fjöldi þeirra í kviði verið frá 4 til 135 eftir stærð hrygnu. Stærð við got er um 40 cm. Meðgöngutími er 9-12 mánuðir. Kynþroska er náð við 4- 6 ára aldur en bláháfurinn getur orðið 20 ára eða eldri. Ástalíf þeirra er fjörugt og eru hrygnur meira og minna bitnar eftir hængana. Þær eru því með þrisvar sinnum þykkari skráp en þeir.

Fæða bláháfsins er mjög margbreytileg. Hann virðist éta allt sem að kjafti kemur þegar sá gállinn er á honum. Á matseðli hans eru alls konar fiskar eins og síld, sardína, ansjósa, hafáll, kyrrahafslax, sláni, lýsingur, þorskur, ýsa, lýsa o.fl. þorskfiskar, makríll, túnfiskur, háfar o.fl. tegundir en einnig hryggleysingjar eins og smokkfiskar sem hann er mjög sólginn í, krabbadýr og fleira. Einnig étur hann hvalhræ og hann ræðst á smáhveli. Þá hefur hann á sér slæmt orð sem mannæta og eru dæmi til um að hann hafi ráðist á sjóbaðendur, kafara og skipreika sjómenn. Alls konar fljótandi drasl, svo sem blikkdósir og annað rusl, lætur hann heldur ekki í friði þegar græðgin nær algerum tökum á honum.

Nytjar: Bláháfurinn veiðist á Iínu, meðal annars sem aukaafli við túnfiskveiðar, en einnig er hann veiddur í flotvörpu og jafnvel botnvörpu nærri ströndum. Hann þykir verðugur andstæðingur við sjóstangaveiði. Hann er étinn nýr, reyktur, þurrkaður og saltaður. Skrápurinn er sútaður í leður en uggar fara í súpur. Einnig er honum breytt í mjöl og Iifur brædd í lýsi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?