Ýsa

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Melanogrammus aeglefinus
Danish: kuller
Faroese: Hýsa
Norwegian: hyse, kolje
Swedish: kolja
Plish: Plamiak a. lupacz
English: Haddock
German: Schellfisch
French: églefin
Spanish: eglefino
Portuguese: arinca, eglefino
Russian: Píksha

Ýsa er straumlínulaga og allþéttvaxin, gildust um miðjan bol og fer smámjókkandi aftur eftir. Haus er meðalstór og beinaber og kjaftur frekar lítill og er ýsan undirmynnt. Tennur eru smáar og á höku er lítill skeggþráður. Augu eru stór. Bakuggar eru þrír og sá fremsti hæstur og þrístrendur. Raufaruggar eru tveir og sá fremri lengri.

Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru framan við eyrugga. Sporður er stór og sýldur. Hreistur er allstórt og rák mjög greinileg.

Lengsta ýsa sem veiðst hefur við Ísland var 112 cm á lengd. Var hún 16,8 kg á þyngd slægð og 13 eða 14 ára gömul. Þessi ýsa veiddist í maí árið 1927 einhvers staðar á svæðinu milli Ingólfshöfða og Dyrhólaeyjar. Áður hafði veiðst 104 cm og 11 kg ýsa í Miðnessjó árið 1924. Í janúar árið 1991 veiddist 109 cm ýsa á línu út af Arnarfirði. Var hún 8,45 kg slægð og 14 ára gömul. Í febrúar 2002 veiddist 106 cm ýsuhrygna, 12 kg á þyngd (9 kg slægð), í dragnót í Reykjanesröst. Hún var 1 1 ára gömul. Nú eru ýsur lengri en 80 cm sjaldséðar.

Litur ýsunnar er grá- eða blágrænn á baki en silfurgljáandi á hliðum með fjólublárri slikju á lifandi fiskum. Kviður er hvítur. Rákin er svört og stór svartur blettur er áberandi yfir eyruggum.

Geislar: Bl: 14-16,- B2: 20-24,- B3: 19-23;- Rl: 23-27;- R2: 20-25;- hryggjarliðir: 51-57.

Heimkynni eru beggja vegna í Norður Atlantshafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hana að finna frá Svalbarða og Novaja Semlja í Barentshafi, í Hvítahafi og meðfram ströndum Noregs inn í Skagerak og Kattegat, í Norðursjó og allt umhverfis Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Hún er við Færeyjar og Ísland. Í norðvestanverðu Atlantshafi er ýsan við strendur Norður-Ameríku frá Nýfundnalandi suður til Hatterashöfða í Bandaríkjunum. Hún er sjaldséð við Suðvestur-Grænland.

Við Ísland er ýsan algeng allt í kringum landið en einkum þó í hlýja sjónum við suður- og suðvesturströndina. Þar er víða mikið um hana, t.d. við Ingólfshöfða, Dyrhólaey og Vestmannaeyjar, en einnig í Faxaflóa, Breiðafirði og við Ísafjarðardjúp.

Lífshættir: Ýsan er grunnsævis- og botnfiskur sem heldur sig mest á leir- og sandbotni á 10-200 m dýpi en hennar verður þó vart allt niður á 300 m dýpi og jafnvel dýpra.

Fæða ýsunnar er fjölbreytileg. Ýsuseiði éta einkum ýmis smákrabbadýr eins og ljósátu, rauðátu og lirfur þeirra og fleira. Fullorðna ýsan étur ýmis botndýr, svo sem skeljar (ýsuskel, hallloku, smákúskeljar, ígulskel og fleiri), smásnigla, burstaorma, slöngustjörnur, botnkrabbadýr (kuðungakrabba, trjónukrabba), marflær, ígulker, sæfífla og fleiri. Einnig étur ýsan fiska, t.d. marsíli og sandsíli, smásíld, loðnu og spærling. Oft eru rækja, fiskaseiði og síldarhrogn á matseðli hennar.

Ýsan hrygnir á 50-200 m dýpi í hlýja sjónum sunnan-, suðvestan- og vestanlands frá Ingólfshöfða að Látrabjargi við 5,5—10°C hita og eru aðalhrygningarstöðvarnar milli Vestmannaeyja og Snæfellsness. Hrygningin hefst í apríl og er víðast hvar lokið síðast í maí. Eggin eru 1,5 mm í þvermál og fjöldi þeirra um 50 þúsund til 2 milljónir. Hér við land eru þau á bilinu 500 þúsund til 1,5 milljónir, allt eftir stærð hrygnanna. Eggin eru sviflæg og klekjast út á 12-14 dögum hér við land. Lirfan er um 4,5 mm við klak og berast egg og svifseiði með straumum vestur og norður með landinu. Þegar lirfan er 10-15 mm löng fer að votta fyrir uggum og þegar komið er fram í júlí og ágúst eru seiðin orðin 4—5 cm löng og farin að leita botns. Að lokinni hrygningu dreifir fullorðni fiskurinn sér í fæðuleit.

Munur á vexti ýsu í hlýja sjónum og þeim kalda er vart merkjanlegur en hins vegar hefur sýnt sig að gott eða lélegt fæðuframboð ræður úrslitum um vaxtarhraða hennar. Eftir stærð er ýsan kölluð smáýsa 25—45 cm löng og 2—3 ára, miðlungs- eða kurlýsa 45-60 cm og 3-5 ára og stórýsa 60 cm og lengri og 6 ára og eldri. Hún verður kynþroska 3—4 ára gömul. Elsta ýsa sem hefur verið aldursákvörðuð hérlendis var 18 ára og 80 cm löng. Hún veiddist í september árið 1983 á 128-140 m dýpi á Látragrunni (65°21'N, 25°59'V). Ýsur eldri en 9-10 ára eru nú orðnar sjaldséðar. Þó eru á skrá hjá Hafrannsóknastofnun 200 ýsur frá árunum 1981-2001 sem eru 12—18 ára gamlar og eru þær 52-95 cm langar.

Óvinir ýsunnar eru margir og maðurinn þar fremstur í flokki. Auk hans má nefna ýmsa stóra fiska eins og t.d. háf, löngu, þorsk, lúðu og fleiri. Einnig seli og smáhveli. Ýsuseiði verða m.a. fuglum að bráð. Þá lifa alls konar sníkjudýr í og á ýsunni, þeirra á meðal illan sem er krabbadýr á tálknum ýsu, þorsks og fleiri fiska. Ýmiss konar vansköpun í útliti er algeng hjá ýsu, líkt og hjá þorski. Krypplingsýsur eða dvergýsur, ýsur með vanskapaðan haus o.s.frv.

Nytjar: Nytsemi ýsu er mikil. Helstu veiðisvæði eru í Norðursjó, Barentshafi og við Ísland. Afli er mjög sveiflukenndur og fer eftir því hve góð nýliðunin er einstök ár. Hér við land er ýsan mest veidd í botnvörpu en einnig á línu, í dragnót, humar- og rækjuvörpu. Árið 1969 varð ýsuaflinn mestur í norðaustanverðu Atlantshafi og komst í rúmlega 889 þúsund tonn. Á Íslandsmiðum varð ýsuafli mestur tæp 120 þúsund tonn árið 1962. Afli Íslendinga á Íslandsmiðum varð mestur árið 1982 og komst í rúm 67 þúsund tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?