vogmeri (icelandic)

Vogmær

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
vogmeri
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Trachipterus arcticus
Danish: vågmær
Faroese: silvurkalvi
Norwegian: sølvkveite, vågmerr
English: deal fish, ribbonfish
German: Nordischer Bandfisch, Spanfisch
French: argentin, poisson ruban, trachyptère
Russian: Северный вогмер / Sévernyj vogmér

Vogmær er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur og er kviðröndin þykkari en bakröndin líkt og hnífsblað sem snýr egginni upp. Bakröndin er bogadregin. Haus er lítill og trjónan er stutt en augu eru stór. Kjaftur er með framskjótanlegum miðskoltsbeinum. Spyrðustæðið er mjög grannt. Bakuggi er mjög langur, nær frá hnakka að stirtluenda. Raufaruggi er enginn. Eyruggar eru litilir og kviðuggar örlitlir. Sporðblaðka er með langa uppvísandi geisla. Roðið er smáhnökrótt. Rákin er greinileg frá haus að stirtluenda. Vogmær verður allt að 3 m löng. Í júlí 1983 fannst 185 cm vogmær rekin á fjöru austan Skaftáróss.

Litur er silfurgljándi með einum til fimm dökkum dílum á hvorri hlið. Uggar eru rauðir.

Geislar: B. 145-186.

Lífshættir: Vogmærin er mest miðsævis- og djúpfiskur en hún hefur veiðst á 60-900 m dýpi. Hún heldur sig dýpra á daginn en á nóttunni. Hennar hefur orðið vart í smátorfum og fundist bæði rekin og veiðst í ýmis veiðarfæri t.d. botnvörpu, flotvörpu, net og fleira.

Fæða er einkum smáfiskar, smokkfiskur, rækja og fleira.

Hér hefur rekið nýgotnar hrygnur í maílok og nýtæmda hænga í miðjum júní við Faxaflóa. Hún gæti því hugsanlega hryngt að vorlagi og fyrri hluta sumars djúpt undan Reykjanesi en þar hefur talsvert veiðst af henni í flotvörpu. Við Noreg verður vogmær kynþroska um 14 ára gömul og rúmlega 2 m löng. Í hrygnum sem voru 239-246 cm langar fundust 485-580 þúsund hrogn.

Nytjar: Nytsemi vogmeyjar er engin því enda þótt hún sé æt er hún lítið lostæti. Auk þess veiðist ekki svo mikið af henni.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?