Úthafssogfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Paraliparis bathybius
Danish: arktisk dyphavsringbuk
Faroese: svarti súgfiskur
Norwegian: svart ringbuk
English: Black seasnail

Úthafssogfiskur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur sem fer mjókkandi aftur eftir. Mesta hæð er jöfn hauslengdinni. Haus er lítill, kúptur að framan og þunnvaxinn. Augu eru stór. Kjaftur er frekar smár og á skoltum eru smáar tennur. Tálknaop eru einnig smá. Nasaop er eitt. Bak- og raufaruggar eru langir og ná út á smáa sporðblöðkuna. Eyruggar eru stórir og efri hluti þeirra er bogadreginn fyrir enda og með 12-13 geisla, skýrt afmarkaður frá neðri hlutanum sem er aðeins með þremur geislum. Kviðuggar eru kverkstæðir og ekki ummyndaðir í sogflögu. Roð er slétt og laust og hálfgagnsætt. Skúflangar eru 6-8. Úthafssogfiskur nær 27 cm lengd.

Litur: Úthafssogfiskur er svartbrúnn á lit, haus og eyruggar eru með blásvörtum blæ.

Geislar: B:58-60; R: 50-51; hryggjarliðir: 64.

Lífshættir: Úthafssogfiskur er kaldsjávar- og djúpfiskur sem heldur sig við botn og miðsævis á 600-1850 m dýpi.

Fæða úthafssogfisks er ýmis svifdýr og smábotndýr.

Hrygning fer sennilega fram í júní til ágúst og eru egg stór, um 4,4, mm í þvermál.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?