Urrari

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Eutrigla gurnardus
Danish: grå knurhane
Faroese: knurrhani
Norwegian: gråknurr, knurr, prest, ryt
Swedish: knorrhane
English: grey gurnard
German: Grauer Knurrhahn
French: gournard, grondin gris
Spanish: borracho
Portuguese: cabra-morena
Russian: Séraja trígla

Urrari er sívalur fiskur á bol, hæstur á mótum hauss og bols og fer smámjókkandi þaðan og aftur eftir. Haus er í meðallagi stór, hár og hallar frá enni niður á snjáldur. Kjaftur er af meðalstærð, nær aftur á móts við augu. Efri skoltur teygist fram fyrir þann neðri. Tennur eru smáar á skoltum og plógbeini. Augu eru stór. Haus vel brynvarinn en á vangabeini eru tveir broddar eða gaddar og einn stór á tálknaloksbeini. Rákarbeinin ná yfir alla kinn og fram á snjáldur og mynda með ytri beinum haussins brynju um hausinn. Bolur er stuttur, stirtlan lengri og allsterkleg. Bakuggar eru tveir og vel aðskildir og er sá fremri styttri og hærri. Raufaruggi er næstum jafnstór aftari bakugga, andspænis honum og eins í lögun. Sporður er stór og grunnsýldur. Eyruggar eru stórir og þrír neðstu geislarnir eru sundurlausir. Kviðuggar eru langir og mjóir og lengri á hængum en hrygnum. Á bol og stirtlu er smágert hreistur en á baki er röð broddóttra beinkartna. Hér hefur urrari mælst lengstur 48 cm en hann á að geta náð um 60 cm stærð.

Litur: Urrari er ýmist grá- eða brúnleitur á lit á baki og hliðum, ljós að neðan og silfurgljáandi. Oft eru litlir, hvítir deplar á baki og hliðum og svartur blettur á fremri bakugga. Rákin er ljós.

Geislar: B1:VII-IX; B2: 17-20; R:17-19; hryggjarliðir: 38.

Lífshættir: Urrari er botnfiskur á sand-, leir- og grýttum botni og einkum á 20-165 m dýpi en fer dýpra eða allt niður á 300 m dýpi. Urrarinn getur staulast um botninn á eyruggunum en hann syndir einnig rösklega um sjó.

Fæða er alls konar krabbadýr, eins og rækja, humar og kuðungakrabbi, auk burstaorma, slöngustjarna og fleiri skrápdýrar og einnig eru smáfiskar, síldarseiði, sand- eða marsíli og flatfiskar á matseðli hans.

Hrygning fer fram á 25-50 m dýpi í mars til apríl og maí á Íslandsmiðum. Hængar með miklum sviljum hafa veiðst í miðjum mars og hrygnur með lausum hrognum í lok apríl. Sunnar í álfunni hrygnir hann í apríl til ágúst og þar verða hængar kynþroska um 18 cm langir og þriggjaára en hrygnur um 24 cm og fjögurra ára. Egg eru sviflæg, 200-300 þúsund. 3-4 mm í þvermál. Seiðin eru einnig sviflæg þar til þau leita botns um 3 cm löng. Svifseiði hafa fundist hér við suðurströndina í júlí en botnseiði hafa ekki fundist ennþá. Urrarinn verður a.m.k. 6-7 ára.

Nytsemi er lítil og engin hér enda veiðist lítið af urrara á Íslandsmiðum þótt nokkur slæðingur komi af honum í humarvörpur. Þar sem hann veiðist meira, t.d. við Bretlandseyjar, er hann stundum nýttur en hann þykir ekki slæmur matfiskur. Hér við land veiðist hann mest í humar- og botnvörpu, dragnót eða rækjuvörpu.

Þegar Belgar stunduðu veiðar á Íslandsmiðum gáfu þeir stundum upp urraraafla þar og mest árið 1957, 35 tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?