Ufsi

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Pollachius virens
Danish: gråsej, sej
Faroese: upsi
Norwegian: sei
Swedish: gråsej
English: coalfish, pollock, saithe
German: Köhler, Seelachs
French: colin, goberge, lieu noir
Spanish: carbonero, colín
Portuguese: escamudo, paloco
Russian: Sájda

 

Ufsi er rennilegur fiskur og straumlínulaga, þ.e. hæstur um miðjuna og fer mjókkandi til beggja enda. Haus er í meðallagi stór, frammjór og teygist neðri skoltur fram fyrir þann efri. Kjaftur er í meðallagi stór og tennur smáar og hvassar. Hjá ungum fiskum vottar fyrir hökuþræði en ekki á stórum fiskum. Stirtla er sterkleg. Bakuggar eru þrír og sá í miðjunni lengstur. Raufaruggar eru tveir og sá fremri er lengri. Sporður er örlítið sýldur. Hreistur er allstórt og rák greinileg.

Ufsi getur orðið 135 cm á lengd. Stærstu ufsar sem vitað er um hér við land voru 132 cm, sem veiddist í Miðnessjó (63°54'N, 22°58'V) í mars 1971 og 130 cm, sem veiddist í Lónsdjúpi í desember 1994.

Litur er blágrár eða dökkblár að ofan en ljósari á hliðum og nærri hvítur á kviði. Kjaftur er svartur að innan.

Geislar: Bl: 12-15;- B2: 18-24;- B3: 19-23,- Rl: 23-29;- R2: 18-23;- hryggjarliðir: 53-56.

Heimkynni ufsans eru beggja vegna Norður-Atlantshafs. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hann við Austur-Grænland og Ísland og þaðan til Færeyja og norðan og vestan Bretlandseyja allt suður í Biskajaflóa. Hann er í norðanverðum Norðursjó og flækingar álpast einstaka sinnum í sunnanverðan Norðursjó. Hann er í Skagerak, Kattegat, dönsku sundunum og flækist inn í Eystrasalt. Þá er hann norður með öllum Noregi og allt norður til Múrmansk og flækingar til Svalbarða og í Barentshafi. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við suðvestanvert Grænland og meginland Ameríku frá Labrador til Stórabanka við Nýfundnaland og allt suður til Hatterashöfða og flækingar jafnvel sunnar.

Hér við land er ufsi allt í kringum landið en algengastur er hann í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands.

Lífshættir: Ufsi er bæði uppsjávar- og botnfiskur. Hann er um allan sjó, er algengastur niður á 200-250 m dýpi en finnst allt niður á 450 m. Hann heldur sig mest við 4-12°C hitastig. Þó finnst hann við 2°C í Barentshafi. Ufsinn er mikið uppi í sjó og gjarnan yfir grýttum botni og sandbotni en einnig yfir svampbotni og kóröllum. Hann er síður á leirbotni. Oft gengur hann um í torfum í ætisleit.

Merkingar sýna að mikill flækingur er á ufsanum. Þannig flækist hann frá Íslandi til Færeyja, Noregs, Skotlands og í Norðursjó. Til Íslands koma ufsar frá Noregi og Færeyjum.

Fæða ufsa er breytileg eftir stærð og svæðum. Þegar kviðpokanum sleppir éta seiðin smákrabbadýr og fisklirfur en síðan einkum burstaorma, rifhveljur, krabbadýr, krabbaflær, smáskeljar, fiskegg og seiði. Ljósáta er yfirgnæfandi æti hjá uppvaxandi og allt upp í meðalstóran (70 cm) ufsa. Fullorðnir fiskar éta ljósátu, fiskseiði (þorsk-, ýsu- og sandsílisseiði), fisk (loðnu sem er aðalfæða 70-100 cm ufsa), síld, smáþorsk, ufsa, ýsu, kolmunna, spærling og fleira. Stærsti ufsinn étur gjarnan smokkfisk. Í fæðuleit sinni flækist ufsinn um allan sjó.

Fullorðni fiskurinn safnast saman um hávetur fyrstur allra þorskfiska til hrygningar og hefst hrygning hér við land síðari hluta janúar með hámarki í febrúar en er lokið um miðjan mars. Fer hrygning einkum fram á svæðinu frá Lónsvík við Suðausturland og vestur um að Látrabjargi en mest á Selvogs- og Eldeyjarbanka. Víðast í norðaustanverðu Atlantshafi hrygnir ufsinn á sama tíma og hérlendis. Hann hrygnir á 100-200 m dýpi. Egg eru sviflæg og fjöldi þeirra dálítið á reiki en nefndar hafa verið tölur frá nokkur hundruð þúsundum og upp í átta milljónir. Eggin eru 1—1,2 mm í þvermál. Lirfan klekst út á 9 dögum við 6°C hita en á 6 dögum við 9°C hita. Við klak er lirfan um 3,4-3,8 mm löng og með stóran kviðpoka. Bæði egg og lirfur berast með straumi Iangar leiðir frá hrygningarstöðvunum og þannig berast lirfur í áttina til Vestur- og Norðurlands. Þegar seiðin eru 3-5 cm löng, sem er um miðjan júní, finnast þau í víkum, vogum, höfnum og fjörðum allt í kringum landið.

Ufsinn í Norðvestur-Atlantshafi hegðar sér töluvert öðruvísi. Hrygningartími hans er í október til mars með hámarki frá miðjum október til miðs janúar. Hann hrygnir líka grynnra, á 4—110 m dýpi. Þegar seiðin eru 4—5 mánaða gömul eru þau 5-6 cm löng. Ársgömul eru þau 10-25 cm og tveggja ára smáufsi er 28—42 cm og leitar hann þá dýpra út á veturna. Ufsinn verður kynþroska 4-7 ára gamall og oftast 5—6 ára.

Óvinir ufsans, auk mannsins, eru alls konar sníkjudýr, einkum ormar (hringormar, band- ormar), krabbadýr og fleiri. Lirfur, seiði og ungfiskar verða öðrum fiskum að bráð en einnig fuglum. Fullorðnir fiskar eru ekki öruggir fyrir hákarli, tannhvölum, selum og fleiri tegundum. Egg og lirfur verða m.a. smákrabbadýr- um, hveljum, ormum og fleirum að bráð.

Nytjar: Nytsemi ufsans er mikil. Hann er veiddur í botnvörpu og dragnót en einnig í net og á línu. Aðalveiðiþjóðir eru Norðmenn, Íslendingar og Færeyingar og helstu veiðisvæði eru vestan Noregs, Norðursjór og Íslandsmið. Á markað kemur ufsinn nýr og ísaður, flakaður og frosinn, saltaður, þurrkaður eða reyktur. Árið 1971 varð ufsaaflinn á Íslandsmiðum tæp 134 þúsund tonn en afli okkar varð mestur rúm 99 þúsund tonn árið 1991.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?