Tvírákamjóri

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: lycodes eudipleurostictus
Danish: dobbeltliniet ålebrosme
Faroese: ulvsbródir
Norwegian: båndeålebrosme
English: Doubleline eelpout

Á tvírákamjóra sést vel þroskuð miðlæg rák, yfir miðjum eyruggum skiptist hún og neðri hlutinn myndar kviðlæga rák. Á ungum fiskum er kviðlæga rákin oft ógreinileg. Hreistur nær yfir allan skrokk og á kviðnum allt til róta kvið- og eyrugga. Háls framan við bakugga er oftast hreistraður nema á ungum fiskum. Eyruggar eru grunnsýldir í aftari enda. Lengd frá trjónu að rauf er 39-44% af lengd fisksins að sporði. Skúflangar eru tveir. Tvírákamjóri getur náð a.m.k. 44 cm lengd.

Litur: Tvírákamjóri er grár til brúnn eða dökkrauðbrúnn á lit með 5-10 ljósum þverröndum sem ná út á bakugga og oft raufarugga. Auk þess hafa fundist á Íslandsmiðum dökkbrúnir fiskar ánþverranda og dökkbrúnir fiskar, ljósir á kvið.

Geislar: B: (96) 100-105 (106); R: (86) 87-90 (92); E: 19-20 (22); hryggjarliðir: (105) 106-110.

Lífshættir: Tvírákamjóri er kaldsjávarfiskur á leirbotni á 240-1000 m dýpi og við -1,1 til 2,5 °C hitastig.

Fæða er smákrabbadýr, burstaormar, slöngustjörnur og fleira.

Ekkert er vitað um hrygningu tvírákamjóra á Íslandsmiðum en í 25 cm hrygnu sem veiddist í Grænlandssundi voru 85 egg, 6 mm í þvermál og nær fullþroskuð egg, 5,5 mm í þvermál, hafa fundist í ágúst, væntanlega í Barentshafi. (Andriashev). Fjöldi eggja er 123-250.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?