Trölli

Ath mynd af gömlu eintaki. Trölli
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lamprogrammus shcherbachevi
Faroese: Valtvarfiskur
English: Scaleline cusk

Trölli er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur, hæstur og breiðastur við afturenda hauss og fer þaðan smámjókkandi aftur á sporð sem rennur saman við bak- og raufarugga án sporðblöðku. Fjarlægð frá trjónu að rauf er um það bil jafnlöng og tvöföld hauslengd eða styttri. Bakuggi er mjög Iangur, byrjar ofan á haus og nær aftur á sporð. Raufaruggi er einnig langur, þó mun styttri en bakuggi. Fremri hluti bak- og raufarugga er hærri en afturhlutinn. Eyruggar ná ekki aftur fyrir rauf. Kviðugga vantar en eru e.t.v. á ungviði. Haus er af meðalstærð og augu frekar smá. Kjaftur er í meðallagi stór og tennur smáar. Hreistur er smátt. Einföld röð af stórum hreisturflögum er við bakrönd hvorum megin frá haus og aftur eftir baki. Stærð erum 200 cm. Eini íslenski fiskurinn mældist 183 cm en það vantaði aftan á hann.

Litur er sagður dökkbrúnn í lýsingum og á Íslenska eintakinu vottaði fyrir brúnum lit. Auk þess er fiskurinn ljósfjólubláleitur á baki og á hliðum en silfurhvítur á kviði.

Geislar: B: um 131-140 (a.m.k. 136 á Íslenska fiskinum), R: 104-117 (a.m.k. 110 á þeim Íslenska); E: 18-19 (18 hér); gelgjur: 8; tálknbogatindar: 19-22 (22 hér); hryggjarliðir: 71-74.

Heimkynni: Þessi fisktegund hefur veiðst í Suður-Kyrrahafi undan Chile, í Indlandshafi við Vestur-Ástralíu, í Suðaustur-Atlantshafi undan Angóla í Afríku, í Norðvestur-Atlantshafi undan Súrínam við norðanverða Suður- Ameríku og í Norðaustur-Atlantshafi vestan Skotlands þar sem einn 142 cm langur veiddist á 1000 m dýpi í desember árið 1995 og í suðurkanti Færeyjabanka þar sem annar sem mældist rúmir 170 cm veiddist á 300- 500 m dýpi í júlí árið 1997. Loks veiddist einn rúmlega 183 cm langur (vantaði á hluta af sporði) á 55—73 m dýpi á Boðagrunni (63°25'N, 23°50'V) suðvestan Reykjaness í desember árið 2000.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti tegundarinnar enda ekki veiðst nema sjö fiskar ennþá svo kunnugt sé. Fiskurinn mun þó vera miðsævis-, botn- og djúpfiskur og sá sem veiddist hér við land hefur verið á óvenjugrunnu vatni. Tennur benda til þess að fiskurinn lifi á ýmsu linmetí frekar en harðmeti.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?