Trjónufiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Rhinochimaera atlantica
Danish: spydnæset havmus
Faroese: tranthavmus
Swedish: långnosad havsmus
English: knifenose chimaera, straightnose rabbitfish
French: chimère à nez mou, chimère-couteau
Spanish: chimére nez lance
Russian: Атлантическая носатая химера / Atlantítsjeskaja nosátaja khiméra

Trjónufiskur er auðþekktur á oddmjórri og framteygðri trjónu sinni. Trjónufiskurinn er alldigur um miðjuna og er mesta hæð við fremri bakugga en fer mjókkandi aftur eftir og sporður enda í eins konar halaþræði. Haus er í meðallagi stór og fram úr honum teygist alllöng trjóna. Kjaftur er útstæður og tennur renna saman og mynda svokallaðan skafl. Augu eru í meðallagi stór. Bakuggar eru tveir og er sá fremri þrístrendur og með gaddi fremst. Þessi gaddur er laus við uggann að ofan. Aftari bakuggi er langur og lágur og ekki samvaxinn sporði. Raufarugga vantar. Eyruggar eru allstórir, stærri en kviðuggar. Kviðuggar hænganna mynda göndul eða sáðrennur og auk þess er hornsepi á enni hænganna eins og á geirnyt. Hreistur vantar á fullorðna fiska. Rák er greinileg og um hausinn greinist rákarkerfi. Trjónfiskur getur náð um 140 cm lengd eða enn meira. Hér hafa veiðst þrír trjónufiskar 140 cm langir: í desember árið 1959 vestan Eldeyjar, í maí 1992 djúpt vestur af Öndverðarnesi (64° 19´N, 27°46´V) og í mars 1993 suðvestur af Reykjanesi (62°10´N, 25°25´V).

Litur: Trjónufiskur er ljósbrúnleitur á baki og hliðum en ljós á kviði.

Lífshættir: Trjónufiskur er djúp- og botnfiskur. Hann hefur veiðst á 440-1630 m dýpi og hér er hann algengastur á 600-1100 m dýpi.

Trjónufiskur lifir á alls konar botndýrum, meðal annars krabbadýrum. Notar hann trjónuna við fæðuleit.

Nytjar: Ekki hefur trjónufiskur verið nýttur en hann er vel ætur ef vilji er fyrir hendi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?