Tómasarhnýtill

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Cottunculus thomsonii
Danish: Thomsons paddeulk
Faroese: huldukrutt
English: pallid sculpin
French: cotte blême
Russian: Коттонкул Томсона / Kottonkúl Tómsona

Tómasarhnýtill er hausstór fiskur og aftur mjókkandi – hausinn er um þriðjungur af lengd fisksins. Mesta hæð er á mótum hauss og bols og mjókkar fiskurinn þaðan og aftur eftir. Stirtla er gönn. Augu eru stór og liggja ofarlega á hausnum. Kjaftur er frekar lítill. Tennur eru í breiðum röðum á miðskoltsbeini og neðri skolti. Tvær stuttar aðgreindar tannaraðir eru á plógbeini en engar á gómbeinum. Á haus eru hnúðar eins og smáhorn. Bakuggi er einn og lágur að framan en hækkar aftur eftir. Raufaruggi byrjar um miðja vegu á milli trjónu og sporðblöðku og er mun styttri en bakuggi. Eyruggar eru mjög stórir og ná aftur fyrir rauf. Kviðuggar eru litlir. Roð er slétt og hreisturslaust. Í janúar 1991 veiddist 47 cm tómasarhnýtill um 90 sjómílur vestur af Jökli. Þetta var hrygna og mun vera lengsti fiskur þessarar tegundar sem veiðst hefur.

Litu: Tómasarhnýtill er ljósbrúnn á lit en uggar eru stundum dekkri.

Geislar: B: V1+17; R: 13-14; E:23; K:I+3.

Lífshættir: Tómasarhnýtill er botnfiskur sem veiðst hefur á 100-1600 m dýpi.

Fæða hans er mest ýmsir botnlægir hryggleysingjar af minni gerðinni. Um hrygningu er lítið vitað en egg eru fá og stór og sennilega botnlæg og hængarnir eru með stóran lim. Í janúarmánuði árið 1991 veiddist nýhryngd hrygna, 47 cm löng, á 695 m dýpi um 90 sjómílur vestur af Jökli og önnur nýhryngd, 40 cm löng, veiddist á um 1000-1100 m dýpi á grálúðuslóðum vestan Víkuráls í apríllok árið 1995.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?