Þykkvalúra

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
sólkoli
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Microstomus kitt
Danish: rødtunge
Faroese: tunga
Norwegian: bergflyndre, landtunge, lomre, oterflyndre, rødtunge
Swedish: bergskädda, bergtunge
English: lemon dab, lemon sole, smear dab
German: Echte Rotzunge, Limande
French: limande-sole
Spanish: falsa limanda, mendo limón
Portuguese: solha-limão
Russian: Камбала малоротая / Kámbala malorótaja, Европейская малоротая камбала / Jevropéjskaja malorótaja kámbala

Þykkvalúra er allþykkvaxin af kola að vera og með mjög lítinn haus. Kjaftur er smár og endastæður og granir eru mjög þykkar. Tennur eru lítið þroskaðar á dökku hliðinni en allstórar og þéttstæðar og mjög beittar á ljósu hliðinni. Augu eru lítil. Bakuggi byrjar á móts við mitt vinstra auga. Sporðblaðka er í meðallagi stór. Hreistur er smátt og slétt. Roðið er þykkt og gljáandi af slími og er þykkvalúran því mjög hál viðkomu. Rák er greinileg og bein nema hún liggur í boga yfir eyruggum. Þykkvalúra verður um 60 cm. Hér hefur hún mælst lengst 55 cm en oftast er hún 20-40 cm.

Litur er breytilegur á dökku hliðinni eins og á öðrum flatfiskum. Oft er þykkvalúran rauðgrá eða rauðbrún og með dökkum dílum eða blettum á hægri hlið en ljós á vinstri hlið.

Geislar: B: 85-98, R: 70-76, hryggjarliðir 48.

Heimkynni þykkvalúru eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Hvítahafi og Norður-Noregi að austan og meðfram strönd Noregs inn í Skagerak og Kattegat og dönsku sundin. Hún er í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður í norðanverðan Biskajaflóa. Þá er hún við Færeyjar og Ísland. Hennar hefur orðið vart við Grænland en finnst ekki við Norður-Ameríku.

Við Ísland er þykkvalúra allt í kringum landið en sjaldséð er hún undan Norðaustur- og Austurlandi. Hún er allalgeng víða við Suður- og Suðvesturland.

Lífshættir: Þykkvalúra er botn- og grunnfiskur á 20-200 m dýpi á sand- og malarbotni.

Fæða er allskonar smábotndýr, einkum burstaormar, slöngustjörnur, smákuðungar, skeljar, marflær og fleiri hryggleysingjar. Einnig smáþörungar og fiskar eins og sandsíli og loðna.

Hrygning fer fram á 50-70 m dýpi og dýpra við suður- og suðvesturströndina. Hrygning hefst seint f maí og er lokið í ágúst. Egg eru 1-1,5 mm í þvermál og sviflæg. Þau klekjast út á 8 dögum við 8-10°C. Seiði eru 4,7-5,5 mm við klak. Þegar þau eru l 5-20 mm á lengd hverfa þau til botnlífs.

Vöxtur er mismunandi eftir fæðuskilyrðum. Fyrstu árin vaxa hængarnir hraðar en hrygnurnar en þegar kynþroska er náð, en þá eru hængar 3-4 ára, hrygnur 4-6 ára, snýst þetta við og hrygnurnar fara fram úr hængunum í vexti. Þær verða einnig eldri.

Nytjar: Nytsemi er víða allmikil þó þykkvalúran hafi ekki verið hátt metin hjá okkur Íslendingum áður fyrr. Mest mun vera veitt af henni í Norðursjó. Mestur varð þykkvalúruaflinn á Íslandsmiðum árið 1963, tæp þrjú þúsund tonn. Arið 2006 veiddu Íslendingar um 2.700 tonn á Íslandsmiðum og er það mesti afli okkar til þessa.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?